31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (3540)

180. mál, olíu- og bensínverð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil benda hæstv. viðskmrh. á, að það kom fram í upplýsingum hans, að nokkuð hefði þegar verið gert í því að jafna olíuverðið. Hann gaf að vísu ekki upp, hve mikill — ef einhver væri — hluti dreifingarkostnaðarins er innifalinn í því verði, sem olían var seld á í Reykjavík. Hann hefur með þessu stigið sporið til hálfs. Hins vegar er ekkert upplýst, hvers vegna olíufélögin geta selt olíuna 120 kr. ódýrara til ríkis en til einstaklinga. — Ég vil einnig benda á, að ríkið hefur fengið yfir 1 millj. kr. í tekjur á ári af olíuskipi, sem það á, og notað í eyðslufé.

Ég vil því eindregið mælast til þess, að hæstv. viðskmrh. snúi sér af meiri alvöru að því að framkvæma vilja Alþ. í þessu máli og stígi það skref til fulls, sem hann hefur þegar stigið til hálfs.