08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (3546)

181. mál, drykkjumannahæli

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil út af þessari fsp. hv. þm. Barð. gefa þessar upplýsingar: Jörðina Úlfarsá fékk rn. til umráða seint á árinu 1949 og greiddi kaupverð hennar til búnaðardeildar atvinnudeildar háskólans, sem þá var talin eigandi hennar, sem nam 210 þús. kr., eins og jörðin var þá. Þá var hafizt handa um húsabætur þar með það fyrir augum, að hægt væri að setja þar upp smáhæli fyrir drykkjusjúklinga. Það var unnið að þessari húsagerð og breytingum á húsum og viðaukum árið 1950, og mátti telja, að því væri lokið í árslok 1950. Til þess hafði alls verið varið 171252 kr., svo að stofnkostnaður hælisins frá upphafi, kaup á jörðinni og þær byggingar, sem settar voru upp, hefur verið alls 381252 kr. Fyrir þetta hefur verið greitt af eignahreyfingalið 20. gr. utan fjárl.

Ég vil taka það fram, að þessar ráðstafanir allar voru gerðar áður en ég tók við heilbrmrn., þó að það væri mitt verkefni að sjá um framkvæmdina eins og búið var að leggja grunninn að henni. — Í þessu sambandi vil ég geta þess, að það hefur komið í ljós, að fleira þarf að gera þarna en gert var í fyrstu. T. d. hefur komið í ljós, að þar er ekki nægilegt neyzluvatn, og t. d. var það svo í sumar, að leita varð sérstakra ráðstafana til þess að ná í vatn. Nú er verið að athuga, hvernig hægt sé að bæta úr þessu, því að ómögulegt er að hafa þar hóp manna öðruvísi en að búið sé að tryggja slíkt. Þetta kom ekki fram fyrr en í hinum miklu þurrkum í sumar, en að þessu er verið að vinna.

Það eru engir drykkjusjúklingar til dvalar á Úlfarsá enn, eins og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sé kunnugt, og þar af leiðandi er ekki um neinn rekstrarkostnað að ræða. Það var tekið það ráð í vor, að manni var leigð jörðin til þess að nytja hana í bili með því skilyrði, að hann yrði fyrirvaralaust að hverfa af henni hvenær sem væri. Þetta var gert vegna þess, að sérfræðingar rn. í heilbrigðismálum lögðu á móti því í vor, þegar rn. var að afla sér upplýsinga hjá þeim um það, hvort þeir vildu láta starfrækja þetta hæli, að þarna væri sett upp sjálfstæð, ríkisrekin stofnun með forstjóra og starfsfólki. (LJóh: Hverjir eru þeir sérfræðingar?) Yfirmaður þeirra mála er landlæknirinn. En þeir lögðu til, að jörðin yrði leigð völdum ábúanda með þeim skilyrðum, að hann tæki að sér sérstaklega þá vistmenn, sem hægt væri að taka á hælið, sem eru í mesta lagi 10, fyrir ákveðið umsamið daggjald, sem að einhverju leyti yrði miðað við dvalarkostnað á sjúkrahúsum. — Þetta voru þær till., sem landlæknir lagði til varðandi rekstur hælisins. Rn. féllst á, að það væri rétt að reyna þetta, ef unnt væri, og af þeim ástæðum var hælið ekki tekið til rekstrar í vor og enn hefur ekki heppnazt að fá mann, sem vildi taka jörðina og búa á henni með þeirri kvöð, sem því fylgir að taka við þessum vistmönnum og sjá um þá, að sjálfsögðu undir eftirliti heilbrigðisstjórnarinnar, sem gert er ráð fyrir í l. að sé yfirlæknirinn og læknarnir á Kleppi, því að það liggur í hlutarins eðli, að ekki er til neins að reyna þetta á þessum grundvelli nema með völdum manni og völdum hjónum, því að það veltur ekki minna á húsmóðurinni á slíku heimili, ef slík tilraun ætti að takast sæmilega. Það hefur sem sagt ekki enn þá tekizt að fá slíkan mann, og heppnist ekki þessi leið, sem lögð er sérstaklega til af sérfróðum mönnum, þá mun rn. fara aðra leið í þessum efnum og láta reka hælið sem deild frá Kleppsspítalanum með einhvers konar fráhlaupi starfsfólkins þar. Og þetta mundi verða sett í gang nú á þessum vetri eða næsta vor, eftir því sem ástæður eru fyrir hendi.

Ég held þá, að ég hafi svarað 4 fyrstu liðum fsp., en svo er 5. liðurinn, sem ég vil fara örfáum orðum um. Í l. þeim, sem hv. fyrirspyrjandi vitnar til, sem eru l. frá 1949 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, er gert ráð fyrir þrenns konar sjúkrahúsum eða hælum fyrir menn, sem eru ofdrykkjumenn. Í fyrsta lagi hæli reknu af ríkinu, þar sem gert er ráð fyrir að séu sérstaklega menn með góðar batahorfur að ráði sérfróðra manna, og mundi það þá vera svipað hæli og reiknað er með hvað Úlfarsá snertir. Í öðru lagi er gert ráð fyrir sjúkrahúsi eða deild við sjúkrahús, sem sveitarfélög kæmu upp, þar sem ástæða sé til, að ríkið veiti styrk samkv. ákvæðum l. um sjúkrahús, nr. 30 frá 1933. Og í þriðja lagi er gert ráð fyrir gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúka menn, sem hafa minni batahorfur en þeir, sem ætlað er að búa við hin ríkisreknu hæli. Með öðrum orðum, það er gert ráð fyrir, að þessir sjúklingar séu flokkaðir af sérfróðum mönnum og skipt niður á hæli, þar sem þetta kerfi er komið upp, eftir því sem talið er heppilegt, og eins er gert ráð fyrir, að þessi hæli séu rekin af sveitaheimilum með styrk frá ríkinu. Ég hef ekkert legið á því, að þau sveitarfélög, sem vildu leggja í slíka hælisstofnun, ættu að fá viss fjárframlög frá rn. samkv. þeim l., sem hér um ræðir, og það fé er til, því að nú er til tveggja ára framlag samkv. l. um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, 750 þús. kr. á ári, fyrsta framlag frá 1950, og þetta er annað árið. Það er gert ráð fyrir, að sveitarfélög hafi frumkvæðið hvað snertir þessar hælisstofnanir.

Ég held, að hv. fyrirspyrjandi hafi spurt um það í einhverjum þessum lið, hvort hugsað væri að stækka hælið á Úlfarsá frá því, sem nú er. Ég vil geta þess, að engar ráðagerðir eru um það að svo stöddu, og ég hygg, að það sé ekki rétt að leggja í að stækka þetta hæli, heldur eigi að reyna, hvernig gengur með rekstur hælisins, og ég held, að það eigi þá heldur að nota það fé, sem ríkið hefur til umráða, til annars hælis. Svo tel ég, þó að ég vilji ekki telja mig hafa mikla þekkingu á þessum málum, eins heppilegt að byggja í smáum stíl hvað þessi hæli snertir, sérstaklega ef unnt er að koma því fyrir á þann hátt, sem hugmyndin er, að reyna að koma þessum mönnum fyrir sem vistmönnum hjá einhverjum góðum forráðamanni, sem sinnti jörðinni samtímis. Hitt er annað mál, að ef þetta er rekið sem ríkisrekið hæli með svo fáum sjúklingum sem hér um ræðir, þá má segja, að þetta mundi verða of dýrt, nema hælið væri stærra.

Að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til að segja fleira um þetta.