08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í D-deild Alþingistíðinda. (3547)

181. mál, drykkjumannahæli

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson):

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir mjög greinargóð svör í þessu máli. Það er komið hér í ljós allt, sem við spáðum um þessi mál, sem vorum á móti löggjöfinni, og alveg sérstaklega í sambandi við gæzluvistarhælin. Við spáðum því, að bæjar- og sveitarstjórnirnar mundu aldrei ráðast í að koma þessum hælum upp með 60% greiðslum frá sér og 40% frá ríkinu. Ég álít, að það hefði átt að byggja þessi hæli fyrir það fé, sem nú er lagt til hliðar og til mun vera í sjóði, 1½ millj. kr., og mér fyndist, að næsta sporið ætti að vera, að l. verði breytt á þessu þingi þannig, að þetta fé verði notað til þess að hefjast handa um að byggja hæli yfir þessa sérstöku menn.

Hvað svo líður þeim tilraunum, sem verið er að gera á Úlfarsá, þá hafa spádómar okkar þar einnig rætzt, og þær till., sem sérfræðingarnir gerðu á Úlfarsá, eru ekki byggðar á raunverulegri reynslu eða þess að vænta, að sá árangur verði, sem þeir vonast eftir.

Mér þykir rétt að láta það koma fram í sambandi við þetta, að við nm. í fjvn. áttum tal við fangavörðinn á Litla-Hrauni, þar sem nú munu vera um 30 fangar, og fullyrti hann við okkur, að a. m. k. helmingurinn af öllum þeim fjölda, sem þar er, væru beinlínis menn, sem ættu að vera á drykkjumannahæli, en alls ekki í fangahúsi eins og þar er og torvelda mjög þá starfsemi, sem þar er rekin. Væri til athugunar, þegar þessi mál eru tekin fyrir á Alþ., að sameina í flokk þá menn, sem eiga þar ekki heima, og byggja yfir þá, sem hér ráfa á götunni, samtímis því sem byggt er yfir þann fjölda, sem þar er, en ætti að vera í sjúkrahúsi.

Ég vil svo endurtaka þakklæti mitt til hæstv. ráðh. fyrir svör hans, því að það er þegar upplýst allt, sem ég óskaði sérstaklega í sambandi við fyrirspurnina.