08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (3548)

181. mál, drykkjumannahæli

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það er vissulega ekki að ófyrirsynju, að hv. þm. Barð. bar fram fsp. um þetta mál, því að sannast sagna hefur framkvæmdin samkv. l. frá 1949 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra farið mjög í handaskolum, svo að vægt sé til orða tekið. Eins og hæstv. forsrh. tók fram, gera l. ráð fyrir þrenns konar stofnunum. Í fyrsta lagi stendur í 8. gr.:

„Á kostnað ríkisins skal reisa og reka í sambandi við geðveikrahælið og í hæfilegri nálægð þess gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúka menn, er fyrst og fremst sé miðað við þarfir þeirra sjúklinga, sem ætla má, að eigi sér sæmilegar batahorfur.“

Varðandi drykkjumannahæli, þá hefur það mál mjög farið á annan veg undanfarin ár en æskilegt hefði verið. Fyrst var reynt í Kumbaravogi, síðan í Kaldaðarnesi, og mistókst á báðum stöðunum. Nú er von um að koma upp slíku hæli á Úlfarsá. En þegar jörðin var keypt og húsabótum lokið, þá er látið líða upp undir hellt ár án þess að hælið taki til starfa, því að hæstv. ráðh. upplýsir, að um síðustu áramót hafi húsabótum þar verið lokið. Ástæðan, sem hæstv. ráðh. færir fram fyrir því, að hælið er ekki tekið til starfa, þetta hæli, sem ríkið samkv. l. skal reisa og reka, er sú, að sérfræðingar heilbrmrn., þ. e. landlæknir, hafa lagt á móti því, að þarna væri sett upp sjálfstæð ríkisstofnun. Ég verð að segja. að mér finnst þetta óskiljanlegt. Landlæknir hefur sjálfur samið þessi l. að mestu leyti, og þar segir hann beinlínis, að ríkið skuli reisa og reka þetta hæli. Þegar það er fullbúið, leggur hann eindregið til, að ríkið reki ekki hælið sem sjálfstæða stofnun. Það er erfitt að fóta sig á því, hvað hér liggur á bak við, og mér virðist, að ríkið hafi ekki gætt sinnar skyldu í þessum efnum.

Önnur tegund hæla er, eins og hæstv. ráðh. gat um, gæzluhæli fyrir drykkjusjúklinga, sem ættu að fá þar vist í langan tíma. Það er engin fyrirskipun í l. um að reisa slík hæli, en ef einstök sveitarfélög óska þess, þá þarf leyfi ráðh. til þess að fá styrk til þess, 2/5 stofnkostnaðar. Reykjavíkurbær hefur undanfarin ár undirbúið að koma upp slíku hæli, og munu vera orðin 3 ár síðan ég kvaddi til ráðuneytis ýmsa menn, sem mestan kunnugleik hafa í þessum málum, sakadómara, lögreglustjóra, stórtemplar, formann áfengisvarnanefndar kvenna og fleiri aðila, til þess að gera till. um fyrirkomulag og staðarval. Eftir langa athugun komust allir þessir aðilar og bæjarráð Reykjavíkur og bæjarstjórn einróma að þeirri niðurstöðu að stofnsetja hælið alllangt frá Reykjavík, og virtist lítil fyrirstaða verða úr þessu, þar sem þessir aðilar höfðu að lokum allir orðið sammála. Ég átti tal um þetta við hæstv. ráðh. og skrifaði rn. um málið í fyrra með bréfi 25. okt. 1950, þar sem ég skýrði frá þessu og óskaði eftir leyfi rn. til þess að stofnsetja þetta hæli fyrir þessa krónísku drykkjumenn eða róna, eins og þeir eru kallaðir á venjulegu máli, og þar með að fá styrk til þess. Eftir að þetta bréf var sent, var haldinn fundur með þessum sérfræðingum hæstv. ráðh. og með þeim afleiðingum, að þó að nú sé komið ár síðan, hefur bæjarstjórnin ekki fengið leyfi til þess að stofnsetja þetta hæli. Ég veit vel af viðtölum mínum við hæstv. ráðh., að hann er allur af vilja gerður og skilur nauðsyn þessa máls, en því miður, — og það er að mínu viti hans eina sök, — hefur hann látið þessa sérfræðinga ráða um of gerðum sínum í þessu máli, og kemur það fram í því, að Úlfarsá hefur ekki tekið til starfa og Reykjavíkurbæ hefur ekki verið leyft að reisa þetta gæzluvistarhæli, sem fullkomið samkomulag er um í bæjarstjórn að setja á stofn og þar sem bærinn hefur forgöngu um að greiða 3/5 stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar. Mér þykir þetta miður farið, að svo skuli vera. En ég verð að segja það hér, sem er flestum þm. kunnugt, að það er alls staðar sama eyðimörkin, þar sem andi núverandi landlæknis svífur yfir vötnunum.

Þriðja tegund hæla, sem 1. gera ráð fyrir, er sú, sem langmestum ágreiningi veldur og um ræðir í I. kafla, og það er að byggja sérstaka sjúkradeild á Kleppi og flytja þangað alla, er úr umferð eru teknir, til rannsóknar, hvort sem þeir eru drykkjumenn eða hafa aldrei áður lent í höndum lögreglunnar. Um þetta er ákaflega mikill ágreiningur, hvort það sé nauðsynlegt. Læknar hafa látið í ljós þá skoðun, að gæzluvistarhæli fyrir róna og klínikhæli fyrir drykkjusjúklinga og spítalabygging sé allt meira aðkallandi en viðbótarbygging við Klepp. Ég skal ekki fella neinn dóm um, hver er heppilegasta lausnin á þessu í framtíðinni, en það er álit lækna, að þetta sé minnst aðkallandi. — Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess, að vel mátti misskilja orð hæstv. ráðh.