23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

6. mál, togarakaup ríkisins

Pétur Ottesen:

Ég hafði raunar búizt við, að hæstv. forsrh. hefði í þessu sambandi flutt brtt. um heimild handa stj. til að ábyrgjast lán fyrir Akraneskaupstað til togarakaupa, að vísu ekki gamlan togara eins og gert er ráð fyrir með þessu, heldur togara af nýrri gerð. Ég hreyfði hér á síðasta þingi allmiklum andmælum gegn ráðstöfun nýju togaranna þá, sem gekk í þá átt að hafa Akranes afskipt frá því að geta fengið einn af hinum nýju togurum, og færði ég þá fram ástæður fyrir því, að með þessu væru Akurnesingar rangindum beittir. Ég hef svo rætt við hæstv. ríkisstj. um ábyrgð og fengið góðar undirtektir og vil aðeins nota þetta tækifæri til að lýsa því yfir, að ég mun ræða um það við hæstv. stj., að brtt. í þessa átt verði komið að í sambandi við þetta frv. fyrir 3. umr., og vænti þess, eftir það sem undan er gengið, að gott samkomulag náist um þetta mál við hæstv. ríkisstj. og Alþ.