08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (3551)

181. mál, drykkjumannahæli

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í síðasta tölulið þessarar fsp. er minnzt á kjallara lögreglustöðvarinnar. Ég geri ráð fyrir, að þar sé átt við fangahúsið við Pósthússtræti. Mér þykir ástæða til að minnast á það í sambandi við þetta mál. Bæði ég og fleiri hafa heyrt ömurlegar lýsingar á því húsnæði, sem þar er notað sem fangageymsla, og er þannig látið af því, að varla getur talizt sæmandi af því opinbera að nota það sem fangageymslu, þó að ekki sé nema stuttan tíma í senn. Mér fyndist ástæða til að beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj., hvort ráðstafanir hafi verið gerðar til að fá viðunandi húsnæði til þessara nota. Þessi fsp. er stíluð til félmrh., en þetta mundi sennilega frekar heyra undir dómsmrh. Ef til vill væri þinglegra að beina um þetta sérstakri fsp. til hæstv. dómsmrh., en þó vildi ég hreyfa þessu máli í sambandi við þessar umr.