08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (3552)

181. mál, drykkjumannahæli

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Í fjárlfrv. er gert ráð fyrir, að brúttótekjur af áfengissölunni næsta ár verði um 60 millj. kr. Sem betur fer er það svo, að allur þorri þeirra manna, sem neyta áfengis, hefur ekki verulegan skaða af því. En talið er, að 2–3% af þeim, sem neyta þess, séu sjúkir af eins konar ofnæmissjúkdómi, sem þeir ráða ekki við. Nú er þjóðfélaginu auðvitað skylt að sjá fyrir sínum sjúklingum á sem beztan hátt. En mér finnst þessi skylda enn þá ríkari hvað snertir þessa sjúklinga, af því að þjóðfélagið gerir sér sjúkdóm þeirra að tekjulind. Hins vegar hefur það viðgengizt lengi, að þessum sjúklingum er ekki sinnt sem vera ber. Kann það að vera sumpart af því, að menn hafi ekki gert sér ljóst, að hér væri um sjúkdóm að ræða. En það er skoðun mín, að úr því að þetta er viðurkennt og staðfest, eigi ekki að renna eyrir í ríkissjóð til eyðsluþarfa, fyrr en þessum sjúklingum hefur verið séð farborða. Við vitum og höfum heyrt í þeim umr., sem hér hafa farið fram, að þetta mál hefur farið í handaskolum, sérstaklega fyrir afskipti landlæknis, og álít ég að megi krítisera hann hér á Alþ. Eitt stærsta og ódýrasta skrefið, sem hægt væri að taka í heilbrigðismálum hér, væri að skipta um landlækni. — Í sambandi við umr. um áfengismálin hefur einnig verið bent á annan mann, sem fer með stjórn þeirra, geðveikralækninn á Kleppi. Um þann mann hef ég ekki annað en allt gott að segja, og er hann bæði ágætur maður og læknir, eftir því sem ég bezt þekki til. En stjórn þessara mála á ekki að vera nein aukageta fyrir menn, sem nóg annað hafa að starfa, heldur á að fá það í hendur sérfróðum manni, sem ekki hefur öðrum störfum að sinna, ef hægt á að vera að bjarga mörgum ungum mönnum frá að verða ofdrykkjunni að bráð. Ég álít, að sómi ríkisins liggi við, að séð verði fyrir lækningu á þeim mönnum, sem hægt er að lækna þegar í stað, og ekki beitt neinum vettlingatökum.