23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

6. mál, togarakaup ríkisins

Emil Jónsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál í fyrra fluttum við — hv. þm. V-Ísf. og ég — till. um, að stj. yrði heimilað að ábyrgjast 2 millj. kr. lán til að koma fyrir olíukyndingu í gömlu togurunum. Þetta lán átti þó ekki að nema meiru en 75% af því, sem breytingin kostaði. Þessi till. okkar náði þá ekki fram að ganga, og frv. stj. var samþykkt með þeim breytingum einum, sem hún óskaði eftir. Beindist viðleitni hennar í þá átt að taka fáa togara, kaupa þá, setja í þá þessi tæki og staðsetja þá úti um land, þar sem þörf var fyrir þá vegna atvinnuleysis. Þessu lýsti forsrh. áðan, en ég vil vekja athygli á því, að þessi viðleitni ríkisstj. um breytingu á togurunum miðaðist fyrst og fremst við það að hjálpa þeim stöðum til að kaupa atvinnutæki, þar sem ástandið var alvarlegt og lélegar atvinnuhorfur. Hins vegar var horft minna á að koma í gagn gömlu togurunum, er hér hafa legið að undanförnu og grotnað niður. Það er vitanlegt, að hér liggja margir gömlu togararnir, sem sumir eru allgóð veiðiskip, og ef sá kostur hefði verið tekinn að hjálpa eigendum þeirra til að koma í þá olíukyndingu, væru þeir kannske allir komnir á veiðar. hað hefur eingöngu verið litið á atvinnuþörfina hjá þeim smákaupstöðum og kauptúnum, þar sem ástandið er erfitt, og keypt handa þeim skip og þeim breytt. Þannig hefur orðið miklu minna úr þessum peningum en hefði getað orðið, ef þeir hefðu verið notaðir til að hjálpa eigendum gömlu togaranna til að breyta þeim. Ég vil nú skjóta því til hæstv. ríkisstj. og þeirrar nefndar, sem hefur þetta mál til athugunar. hvort ekki sé möguleiki til að breyta um stefnu og stuðla að því auk þessa að koma togurunum sem flestum á veiðar, ef eigendurnir vildu fara í að breyta þeim sjálfir og gera þá út. Þannig væri hægt að spara allt kaupverðið og þyrfti aðeins að leggja fram fé til að gera breytinguna. Ég vil mjög eindregið skjóta því til hæstv. ríkisstj. og þeirrar nefndar, sem um málið fjallar, hvort ekki er möguleiki á þessu og að tiltaka til viðbótar upphæð til að koma þessari breytingu á. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, og vona ég, að þeir, sem með málið fara, taki það til athugunar.