14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (3577)

183. mál, dilkakjöt

Fyrirspyrjandi (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingar hans. Ég er þó ekki alveg viss um, að ég hafi tekið rétt eftir um kjötbirgðirnar, og vildi leyfa mér að endurtaka þær tölur, eins og ég hef skrifað þær hjá mér, og vænti, að ef þær eru ekki rétt skrifaðar niður, verði það leiðrétt. — Til hefur fallið samkvæmt slátrunarskýrslum í haust um 4 þús. tonn af dilkakjöti. Af því er nú búið að selja til Bandaríkjanna 700 tonn, og eru þá eftir 3300 tonn. Og þá skilst mér, að um 550 tonn sé talið að sé nú búið að selja og éta hér innanlands, þannig að birgðirnar af þessu keti í landinu séu nú 2750 tonn. Og ég skildi það svo, að það væri allt kindakjöt, bæði dilkakjöt og annað kindakjöt. Það er alveg augljóst, að sé þetta rétt skilið hjá mér, að birgðirnar séu 2700–2800 tonn, þá er stórum minna til af kjöti til neyzlu í landinu — þótt ekkert væri flutt út úr landinu — heldur en í fyrra, því að kjötneyzlan mun hafa verið 60–70 kg. á mann á ári.

Ég vil þá í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði, og í sambandi við þá fréttatilkynningu, sem var í útvarpinu frá S. Í. S., þar sem frá því er skýrt, að S. Í. S. hafi farið fram á það við ríkisstj. að fá frekara leyfi til útflutnings á kjöti en þegar hefur verið flutt út og bíður nú eftir svari ríkisstj. við þeim till. — ég vil því spyrja hæstv. ráðh., hvort hann telji, að til mála geti komið að selja meira af þessu kjöti út úr landinu en þegar hefur verið gert, og í öðru lagi ef þessi skilningur minn á þessum birgðum, sem eru í landinu, er réttur, að þær séu um 2750 tonn, hvort ríkisstj. hugsi sér að skammta kjötið eða láta arka að auðnu um það, hjá hverjum það lendir. Það tjáir ekki að sakast um það, sem orðið er. Það ber að mæta þeim erfiðleikum, sem verða af þeim ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar, sem hún hefur gert í þessu efni.

Hæstv. ráðh. upplýsti, að fob-verð á kjöti, sem selt var til Ameríku og valið úr dilkakjötinu innanlands, — því að það er vitað, að það er bezta kjöt, sem uppfyllir það skilyrði, sem sett var þar vestra, — sé 14,95 kr. fyrir kg. En þar af telur hæstv. ráðh. að 13 kr. geti bændur sjálfir fengið heim, þannig að kostnaðurinn við þetta kjöt verði ekki meiri en 1,95 kr. á hvert kg. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri áætlunarupphæð, en gæti þó ekki skeikað sem nokkru næmi frá þessum tölum.

Þá telur hæstv. ráðh., að áætlað sé, að fyrir kjötíð, sem selt er innanlands frá haustinu í haust, muni eftir verðlagsákvörðun framleiðsluráðs landbúnaðarins nettóverðið heim til bændanna verða 11 kr. á kg eða því sem næst, eða 2 kr. lægra en hann áætlaði að verðið yrði fyrir kjötið, sem flutt er til Ameríku. Nú er mér tjáð, að verðið á ódýrasta kjötinu í búðum hér, súpukjötinu, sé kr. 15.50 kg, en í afturpörtum nokkuð yfir 17 kr. kg. Og í viðbót við það útsöluverð er greitt úr ríkissjóði er svarar 1 kr. á smásöluverð, búðarverð. Mætti því, ef þetta er tekið með, hækka smásöluverðið samkvæmt því um þessa 1 kr. Má því áætla, að útsöluverð fyrir kjötið verði rétt liðlega 17 kr. fyrir hert kg, en 6 kr. af því áætlar þó hæstv. ráðh. að minnsta kosti að fari í kostnað, áður en bændur fá sinn hlut heim. Ég man ekki nákvæmlega, hvernig hlutföllin í þessu hafa verið undanfarið. En ég ætla þó, að þetta hlutfall sé heldur hagstæðara bændum en það hefur verið undanfarið. En þótt svo sé, þá verð ég að segja, að það er fullkomið athugunarefni, hvort ekki er hægt að gera einhverjar þær ráðstafanir í sambandi við kjötsöluna innanlands, sem lækki þennan kostnað, sem eftir upplýsingum hæstv. ráðh. er að minnsta kosti 6 kr. á hvert kg við það að útvega neytendum kjötið frá framleiðendunum, meðan verðið til bændanna er 11 kr. Það er hvorki meira né minna en 6000 kr. á hvert tonn af kjöti í landinu, sem kostar að skila því frá bændum til manna, sem kaupa það við búðarborðið, og er þar þó ekki tekið tillit til þess, að hér er miðað við fyrsta flokks kjöt, en vitað er, að kaupendur fá engan greinarmun gerðan eftir því, hvort það er 1., 2. eða 3. flokks. En bændur fá sitt verð heim með stranglega ákveðnum greinarmun á kjötinu eftir flokkum, sem eru greiddir mismunandi háu verði til bænda. Jafnvel þótt rétt væri, að fyrir þetta kjöt, sem fer til Ameríku, fáist 2 krónum meira en fyrir það kjöt, sem selt er innanlands, þegar búið er að velja úr skásta kjötið fyrir Ameríkumarkað, þá er fullkomið athugunarefni, hvort raunverulega gefst meira fyrir kjötið með þessum hætti en með því að selja það innanlands, því að það, sem leggst á á innanlandsmarkaðnum, eru tekjur landsmanna hér, þ. e. 6 kr. á kg, og mætti telja, að bændur gætu fengið meira. Auk þess er þess að gæta, að kjötið, sem selt er til Ameríku, er valið og er bezta kjötið, það, sem bezt hentar fyrir markaðinn í Ameríku, og verður þá því verðminna það, sem eftir er.

Ég verð að segja, með tilliti til þess ástands, sem er um matvælaöflun, að mig furðar á því, að hæstv. ríkisstj. skuli leyfa að flytja meira út en í tilraunaskyni og til þess að opna möguleika fyrir frambúðarsölu, — mig furðar á því, að hún skuli leyfa að flytja það mikið út, að það hafi veruleg áhrif á kjötbirgðirnar í landinu. Það er sagt, að það sé farið að sjást vegna hinnar frjálsu verzlunar innflutt niðursoðið kjöt, lax o. fl. góðgæti í búðunum. Það er ekki óskemmtileg ráðsmennska hjá hæstv. ríkisstj. að flytja kjötið út og selja það fyrir sama verð og það er selt innanlands, hér um bil, en flytja svo inn fyrir peningana lax og niðursoðið kjöt frá Ameríku.