14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (3578)

183. mál, dilkakjöt

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er rétt, að ég lesi upp tölur á ný, til þess að ekki fari á milli mála um það, m. a. frá framleiðsluráði landbúnaðarins.

Áætlað kindakjöt, sem til fellur í sláturtíðinni, er 4000 tonn, en var í fyrra 3940 tonn. Kindakjöt nú í haust mun því verða um 60 tonnum meira en það var 1950. Af þessu kjötmagni munu 600–700 tonn vera ærkjöt, en 3300–3400 tonn dilkakjöt, eftir því sem næst verður komizt. Af þessu kjötmagni hafa verið flutt til Bandaríkjanna 500 tonn og verða sennilega flutt alls 700 tonn. — Kjötsalan frá 15. sept. til 1. nóv. hefur verið 750 tonn. Kindakjötsbirgðirnar 1. nóv. s. l. eru því samkv. þessu 2750 tonn, en frá þessu má draga rýrnun 40–50 tonn. Kjötbirgðirnar í fyrra voru taldar 2673 tonn. Af öðru kjöti er talið að sé 112–115 tonnum meiri birgðir í landinu nú en var í fyrra. Það liggur því fyrir, eftir því sem upplýst er frá framleiðsluráðinu, að birgðir af kjöti eru sízt minni nú en þær voru í fyrra, og þá var það þannig, að það þurfti ekki að skammta kjöt allan veturinn. Það var fyrst þegar kom fram á vorið, þegar birgðirnar fóru að minnka, að minna var um kjöt, — þá var ekki beint hörgull á kjöti, en það var minna um kjöt heldur en venjulega á sama tíma. Og það er sannast sagna hvað snertir geymslu á frosnu kjöti, þegar kemur fram á sumarið, að það er vafamál, hvort það er ákjósanlegri matvara en aðrar matvörur. Ég sé þess vegna ekki — eftir þessum upplýsingum framleiðsluráðs — annað en það liggi ljóst fyrir, að ástandið í þessum málum er ekki lakara en það var í fyrra, og mönnum er kunnugt, hvernig þetta reyndist þá.

Viðkomandi því, hvort ég teldi rétt að selja meira af kjöti til Ameríku, þá vil ég svara því þannig, að ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. ráðgist við framleiðsluráð um það atriði, og það er vitað mál, að framleiðsluráð landbúnaðarins hefur einatt haft mjög mikinn áhuga fyrir því, að kjötbirgðir séu nægar í landinu, — sá markaður, sem það fyrst og fremst vill að bændur fullnægi, er innanlandsþörfin.

Að það sé valið dilkakjöt og 1. flokks dilkakjöt, sem selt er til Bandaríkjanna, þá er því til að svara, að mikill meiri hluti af því dilkakjöti, sem framleitt er hér á landi, er 1. flokks dilkakjöt. — Ég heyri, að hv. 2. þm. N-M. upplýsir, að ekki sé aðeins selt 1. flokks kjöt, heldur einnig 2. flokks kjöt, svo að þessar upplýsingar hv. fyrirspyrjanda eru ekki réttar.

Viðkomandi kostnaðinum við dreifinguna á kjötinu, þeim hluta, sem kjötbúðirnar og starfsfólkið tekur til sín við dreifinguna, þá er það atriði, sem landbrn. fengist til að hafa samvinnu um að lækka, ef unnt er, og ætla ég ekki að vekja umr. um það, en vitað mál er, að bændur standa í stöðugu stríði við kjötbúðirnar út af því, hvað kostnaðurinn er talinn mikill við dreifinguna. Starfskraftar þeir, sem um dreifinguna sjá, eru vitanlega dýrir, en það er áreiðanlega ekki hægt að færa þann kostnaðarlið á reikning annarra en þeirra, sem um dreifinguna sjá, hvort sem sá kostnaður er réttmætur eða ekki.

Viðkomandi vörum, sem hér séu seldar vegna þess, að það sé orðinn kjötskortur, þá held ég, að það hafi ekki við mikið að styðjast, því að svo mikið er víst, að enn þá er enginn kjötskortur og lítur ekki út fyrir að verði frekar en s. l. ár.