14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (3579)

183. mál, dilkakjöt

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hér er um athyglisvert mál að ræða, og mig langar til þess að koma með tvær fyrirspurnir í viðbót til hæstv. landbrh. Í fyrsta lagi: Hvers konar kjöt er þetta, sem flutt er út, hve mikið er 1. flokks og hve mikið 2. flokks? Það liggur í augum uppi, að sé fob-verðið kr. 14.95, miðað við meðalverð, þá veit maður ekkert um verðið, nema vitað sé, hve mikið er 1. flokks og hve mikið 2. flokks. M. ö. o., til þess að geta gert samanburð á útflutningsverði og innanlandsverði þarf að vita nákvæmlega, hvers konar kjöt er um að ræða, en þetta liggur alls ekki fyrir í þeim upplýsingum, sem um þetta voru birtar í morgun. Þetta þarf að liggja glöggt fyrir, til þess að um það verði dæmt, hvort útflutningsverðið er hagstæðara en innanlandsverðið eða ekki. Um þetta vildi ég leyfa mér að óska nákvæmra upplýsinga. Í öðru lagi: Hvaða áhrif er gert ráð fyrir að þessi hækkun, ef um hækkun er að ræða, hafi á innanlandsverðið? Ef kjöt verður flutt út, — úrvalið úr kjötframleiðslunni, eins og mér skilst að eigi sér stað, — er þá meiningin að selja afgangskjötið áfram á sama verði, — á innanlandsverðið að vera hlutfallslega hið sama, þó að úrvalið úr kjötframleiðslunni sé selt úr landi við hækkuðu verði? Þetta er mikilvægt atriði, sem nauðsynlegt er að fá upplýst. — Enn fremur í sambandi við þetta: Ef fluttur er út hluti af kjötinu fyrir hækkandi útflutningsverð, er þá ekki gert ráð fyrir, að það hafi áhrif á innanlandsverðið, vegna þess að tekjur bænda vegna útflutningsins verða meiri en ella? Hæstv. landbrh. upplýsti, að hann gerði ráð fyrir, að bændur fengju 13 kr. fyrir útflutningskjötið, en áætlað meðalverð í innanlandssölu væri 11 kr. Samkvæmt gildandi l. um verðlagningu landbúnaðarafurða er gert ráð fyrir því, að bændur hafi ákveðnar tekjur, þ. e. að ákveðið hlutfall sé milli tekna þeirra og annarra launastétta.

Ef þeirri reglu er fylgt út í æsar, þá á hagnaður, sem verður vegna hækkaðs útflutningsverðs, að koma neytendum innanlands til góða, enda hefur það átt sér stað á ýmsum öðrum sviðum, þegar um hækkað útflutningsverð hefur verið að ræða. Mér er forvitni á að vita, hvaða ráðagerðir eru uppi um áhrif þessa aukna útflutningsverðs á innanlandsverðið að þessu leyti.