21.11.1951
Sameinað þing: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (3598)

184. mál, mannahald við vöruskömmtun og verðlagseftirlit

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í framhaldi af þessum fyrirspurnum hv. þm. V-Húnv. langar mig til að beina einni fyrirspurn til hæstv. viðskmrh.

Eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, var verðlagseftirlit lagt að mestu niður á síðasta sumri, enda þótt haldið væri uppi verðlagseftirliti á nokkrum vörutegundum. En jafnframt var þá lýst yfir af hálfu ríkisstj., að verðlagseftirlitinu, verðgæzlustjóra og hans aðstoðarmönnum, yrði framvegis falið að fylgjast með verðlagi í landinu og breyt., sem það kynni að taka við afnám álagningarreglnanna. Þetta hefur verið gert, sem kunnugt er, og birti hæstv. ríkisstj. fyrir um það bil tveimur mánuðum niðurstöður af rannsókn, sem verðgæzlustjóri hafði með aðstoð trúnaðarmanna sinna gert um verðlag á ýmsum vörum hér í Reykjavík. Þessi skýrsla vakti mikla athygli, og urðu miklar umr. um hana innan þings og utan.

Nú vil ég spyrja hæstv. viðskmrh., hvort ekki hafi verið framhald á þessu starfi verðgæzlustjóra og trúnaðarmanna hans. Hafa verið samdar aðrar slíkar skýrslur af verðlagseftirlitinu? Og ef svo er, er þess ekki að vænta, að þær skýrslur verði birtar almenningi eins og hinar fyrri?