23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

6. mál, togarakaup ríkisins

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það hefur nú verið upplýst, að málið mun ekki verða rætt frekar í n., nema sérstakar till. komi fram. Við 3. umr. mun ég því bera fram viðbótartill., eins og ég bar fram í fyrra, um það, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast allt að 75% af þeim kostnaði, sem það nemur að setja olíukyndingu í nokkra af gömlu togurunum. Er gengið út frá því, að ekki þurfi sérstaklega að verða eigendaskipti til þess að þetta verði gert. — Hæstv. forsrh. sagði að vísu, að hann teldi, að ekkert hefði upplýstst um það, að sumir af gömlu togurunum væru þannig, að það borgaði sig að setja þessi tæki í þá. Þetta er alveg rétt. En það mun líka jafnrétt, að þeir togarar munu vera miklu fleiri en fjórir, sem eru í þannig ásigkomulagi, að það mun þykja vel fært að setja í þá olíukyndingu. Það er þess vegna, sem ég tel rétt að bera fram þessa till. Mér er það líka fullljóst, sem hæstv. forsrh. minntist einnig á, að það er ekki ríkissjóður, sem kaupir þessi skip og gerir þau út, heldur eru það aðrir. En hæstv. ríkisstj. hefur veitt aðstoð, og gert er ráð fyrir, að hún gangi fyrir hönd ríkissjóðs í ábyrgð fyrir 90% af kostnaðarverði. Þó að ekki sé veitt framlag úr ríkissjóði, þá er auðvitað ekki öruggt nema því kunni að fylgja einhver áhætta, eins og hæstv. ráðh. gerði sér ljóst. En ég æski þess, að sú till., sem ég mun flytja milli umr., verði athuguð í n., eins og hv. þm. V-Ísf. hét í sinni ræðu, og verði samþ.

Hún er flutt til þess að reyna að koma í gang þessum atvinnutækjum, sem mörg eru þannig, að þau eru fullkomlega nothæf, ef horfið er frá kolakyndingu, og munu þá geta aflað tekna fyrir þjóðarbúið.