12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (3603)

122. mál, rannsókn gegn Helga Benediktssyni

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Ég hef leyft mér að leggja hér fram fsp. til hæstv. dómsmrh. varðandi rannsókn á atvinnurekstri Helga Benediktssonar í Vestmannaeyjum og ósæmilega og vítaverða framkomu setudómarans og aðstoðarmanna hans, en dómsmrn. skipaði sérstakan setudómara til að fara með rannsóknina.

Fyrirspurnir mínar eru í 3 liðum. Í fyrsta lagi er spurt um tilefni rannsóknarinnar, sem hafin var á miðju ári 1948 og talið er, að enn standi yfir, þó að senn séu liðin 3½ ár síðan hún var byrjuð. — Í öðru lagi er um það spurt, hvort hæstv. dómsmrh. sé ekki kunnugt um ósæmilega og vítaverða framkomu setudómarans og aðstoðarmanna hans gegn Helga Benediktssyni við meðferð málsins. — Loks er svo í þriðja lagi spurt um það, hvort ráðh. ætli að fresta því lengur að taka mál þetta úr höndum hins skipaða setudómara, ef ráðh. er kunnugt um ávirðingar dómarans og hjálparmanna hans.

Ástæðan til þess, að ég hef lagt hér fram á hæstv. Alþ. þessar fsp., er sú, að ég hef fengið upplýsingar viðkomandi rekstri málsins, sem ég tel að sýni alveg óvefengjanlega, að framkoma setudómarans og manna hans í þessu máli hafi í mörgum atriðum verið svo ósæmileg og vítaverð, að slíkt megi með engu móti láta óátalið og afskiptalaust. Vil ég, eftir því sem takmarkaður ræðutími leyfir, nefna dæmi þessu til sönnunar.

Sumarið 1950 tók rannsóknardómarinn og menn hans mikið af bókhaldi Helga Benediktssonar í sínar vörzlur. Létu þeir greipar sópa á skrifstofu hans og höfðu á brott með sér bækur og skjöl, án þess að réttur væri þar settur og án þess að nokkur skrásetning færi fram á því, sem tekið var. Síðar á árinu, í lögreglurétti 10. nóv. 1950, voru einnig tekin þar skjöl og bækur til viðbótar. Gögnum þessum hefur verið haldið síðan, að því undanskildu, að í notarialrétti Vestmannaeyja 28. sept. s. 1. skilaði aðalaðstoðarmaður setudómara nokkrum hluta þess, sem tekið hafði verið. Þau skil voru með þeim hætti, að endurskoðandi þessi lagði fram í réttinum, í upphafi réttarhaldsins, skrá yfir það, sem hann sagðist skila þar af bókum og skjölum. Eftir kröfu Helga Benediktssonar var gerður þar í réttinum samanburður á skrá þessari og því, sem skilað var. Kom þá í ljós, að allmikið vantaði af skjölum, sem endurskoðandinn taldi sig hafa meðferðis til afhendingar samkvæmt skránni, er hann lagði fram, og gat hann ekki gert neina grein fyrir því í réttinum, hvar það, sem vantaði, væri niður komið. Virðist það hafa týnzt hjá rannsóknarmönnunum eða horfið á einhvern hátt. Og eins og áður segir, var það aðeins hluti af því bókhaldi, sem tekið hafði verið, sem skilað var í notarialréttinum 28. sept. í haust, en mikið af bókum og skjölum Helga er enn í fórum rannsóknarmannanna. Þar á meðal eru margra ára gömul skjöl, sem Helgi Benediktsson telur sér nauðsynlegt að fá til að leggja fram í máli, sem rekið er fyrir hæstarétti, en dómarinn og menn hans hafa neitað að skila.

Helgi Benediktsson hefur mjög umfangsmikinn og margþættan atvinnurekstur og viðskipti við fjölda manna. Er því augljóst, að með bókhaldssviptingunni hafa honum verið og eru skapaðir miklir örðugleikar, sem ekki bitna eingöngu á honum sjálfum, heldur einnig á viðskiptamönnum hans og þeim fjölda fólks í Vestmannaeyjum, sem vinnur við fyrirtæki hans. Ég þori hiklaust að fullyrða, að endurskoðun á bókhaldi Helga Benediktssonar var auðvelt að framkvæma á broti af þeim tíma, sem bókum hans og skjölum hefur verið haldið í vörzlum rannsóknarmannanna. Með bókhaldssviptingunni í miklu lengri tíma en nokkur þörf var hafa Helga Benediktssyni því verið skapaðir erfiðleikar og atvinnurekstur hans torveldaður að þarflausu. Þetta er vítavert.

Um meðferðina á bókhaldi Helga Benediktssonar, sem setudómarinn og menn hans höfðu til sín hrifsað, er það einnig kunnugt, að fyrir ári síðan gáfu þeir manni einum vottorð úr bókhaldi Helga. Hafa þeir þannig talið sér sæma að veita öðrum mönnum aðgang að þeim skjölum, sem þeir höfðu tekið til rannsóknar.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, var þessi rannsókn á atvinnurekstri Helga Benediktssonar byrjuð á miðju ári 1948. Síðan eru liðin um það bil 3½ ár. Svo virðist sem setudómarinn hafi haft þetta sem ígripavinnu sér til tekjuauka, þegar hann hafði ekki öðru að sinna, í stað þess að ljúka rannsókninni á hæfilegum tíma. Það er t. d. kunnugt, að á þessu ári tók hann að sér starf við skuldaskil bátaútvegsins og mun hafa verið þar í vinnu fram að þessu.

Svona málsmeðferð er vitanlega mjög aðfinnsluverð. Hver sá, sem rannsókn er beint gegn, á rétt á því, að mál hans sé rekið með eðlilegum hraða, án óþarfra tafa, en ekki haft sem atvinnubótavinna eða „sport“ fyrir einstaka lögfræðinga árum saman. Þessi óhæfilegi og óþarfi dráttur á því að ljúka rannsókninni er eitt dæmið af mörgum um siðleysi yfirvaldanna í þessu máli.

Enn er það ótalið, að sumir þeirra rannsóknarmanna, sem setudómarinn hefur haft sér til aðstoðar í þessum málum og hann því ber embættislega ábyrgð á, hafa komið þannig fram við Helga Benediktsson, fjölskyldu hans og starfslið, að stórlega vítavert og ásæmilegt er. Er auðvelt að færa sönnur á þetta. Ber framkoma þeirra vissulega vott um annað hugarfar en á að vera hjá mönnum, sem valdir eru til rannsóknarstarfa af hálfu dómsvaldsins í landinu.

Ég vænti nú svars hæstv. ráðh. við fsp. mínum.