12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (3606)

122. mál, rannsókn gegn Helga Benediktssyni

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Í sambandi við þá fyrirspurn, sem hér er á dagskrá, vil ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort rannsókn sú, sem hér er um að ræða á starfsháttum Helga Benediktssonar, nær einnig til starfsemi hans fyrir hönd Skipaútgerðar ríkisins.

Ríkisstj. er sennilega ljóst, að Helgi Benediktsson annast afgreiðslu í Vestmannaeyjum fyrir Skipaútgerð ríkisins. Má merkilegt telja, ef ríkisstj. er ekki kunnugt um, að afgreiðslunni er á ýmsan hátt ábótavant.

Mér er vel kunnugt um fyrirtæki, sem sendi Helga Benediktssyni vörur fyrir allt að 20 þús. kr. í póstkröfu með Vestmannaeyjabátnum snemma á s. l. sumri. Vörur þessar tók Helgi Benediktsson og seldi, án þess þó að greiða póstkröfuna. Póstkrafan er enn ógreidd, og hyggst fyrirtækið því höfða mál á hendur Skipaútgerðinni, sem er í ábyrgð vegna afgreiðslunnar í Vestmannaeyjum.

Ólíklegt verður að telja, að þetta sé eina dæmið um óráðvendni í afgreiðslunni, og má því ætla, að jafnvel sé um stærri upphæðir að ræða, sem líkt stendur á með. Getur því átt sér stað, að Skipaútgerðin eigi von á málssóknum úr fleiri áttum. Vildi ég því fá upplýst hjá hæstv. ríkisstj., hvort hún ætlar að láta það afskiptalaust, að Skipaútgerð ríkisins haldi áfram að nota til afgreiðslu fyrir sig mann, sem hagar sér óráðvandlega í starfi.