23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

6. mál, togarakaup ríkisins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forsrh. og ríkisstj. fyrir þá till., sem hér liggur fyrir um að hækka ábyrgðarheimild ríkissjóðs vegna gömlu togaranna, og einnig fyrir þá aðstoð, sem hæstv. forsrh. hefur veitt í þessu efni. En ég vil um leið vekja athygli á því hér í þessari hv. d., að þessi viðleitni, sem hér um ræðir varðandi útgerð á gömlu togurunum til þess að bjarga við atvinnulífinu, er að vissu leyti undanhald viðkomandi þeim stöðum, sem hér eiga hlut að máli, eins og t.d. Höfðakaupstað. Sá staður hefur reynt að fá nýjan togara, en það tókst ekki. Til þess að bjarga við atvinnulífinu var þá horfið að því ráði að leita aðstoðar ríkisins. Nú er það svo, að þörfin á því að fá þessa ábyrgðarheimild hækkaða er miklu ríkari en ella mundi vera vegna þess, hve mjög erfiðlega það gengur að fá rekstrarfé fyrir þennan atvinnuveg eins og allan rekstur í þessu landi, sem þarf rekstrarfé til. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál.