28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (3614)

185. mál, Tryggingastofnun ríkisins

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það var fyrirspurn hv. þm. V-Húnv. um, hvort hægt væri að gefa upplýsingar um greiðslur sveitarfélaganna. Ég hafði ekki búið mig sérstaklega undir að svara þessu, þar sem ekki var um það spurt, en ég get þó sagt almennt um það, að það hafa verið erfiðleikar á þeirri innheimtu, eins og ég hygg að hv. alþm. sé kunnugt, og þeir erfiðleikar hafa farið vaxandi. En mér er óhætt að fullyrða, að Tryggingastofnunin og sveitarfélögin hafa gert allt, sem þau gátu, til þess að þetta væri í lagi, en því ber ekki að leyna, að hér er ástandið alls ekki gott. Ég skal nú geta hér um nokkur bæjarfélög, hvernig ástandið var hjá þeim um síðustu áramót, án þess þó að um tæmandi upplýsingar sé að ræða. Er þá fyrst Akranes sem skuldaði 75 þús. kr. um síðustu áramót. Hafnarfjörður: skuld frá 1950 110 þús. kr. Keflavík: skuld frá 1950 og eldri framlög kr. 253922.99. Reykjavík: skuld frá 1950 kr. 3983046.30, og Ólafsfjörður skuldaði um 240 þús. kr. um síðustu áramót. Ég held, að ekki sé ástæða til að nefna fleiri staði, og hafa víða komið inn meiri og minni upphæðir á árinu, en árið er ekki uppgert enn. — Ég vona, að hv. fyrirspyrjandi láti sér þetta nægja, þar sem ekki var sérstaklega um þetta spurt.