05.12.1951
Sameinað þing: 22. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (3617)

135. mál, stóreignaskattur

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það var hér á dögunum, þegar hv. 4. þm. Reykv. gerði nokkrar fyrirspurnir viðvíkjandi stóreignaskattinum, að hann minntist á það og beindi þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., hvort opinberaður yrði listi fyrir gjaldendur stóreignaskattsins. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. ráðh. svaraði því neitandi.

Nú eru, eins og kunnugt er, birtar skrár yfir gjaldendur tekju- og eignarskatts, þó ekki fyrir atbeina ríkisvaldsins að ég held. Hitt er líka vitað, að mörgum leikur forvitni á að vita, hvernig skiptist greiðsla á stóreignaskattinum, er lögfestur var árið 1950. Það mátti skilja á hv. 4. þm. Reykv., að honum þætti þessi skattur ekki of hár. Ef ég hef tekið rétt eftir, taldi hann, að skatturinn mætti vera miklu hærri.

Ég held, að þetta sé mjög skakkt álit hjá honum. Tímarnir hafa breytzt svo mikið síðan skatturinn var lagður á, að hann er mörgum, sem í hlut eiga, þungur í skauti, og getur farið svo, að hann stöðvi atvinnuframkvæmdir á vissum stöðum utan Reykjavíkur. Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta mál, en síðan skatturinn var lagður á hafa aðstæður breytzt mjög, og sérstaklega er það rekstrarfjárskorturinn, sem gerir vart við sig.

Það er vitað, að þessi skattur er lagður á þrjá höfuðaðila: einstaklinga, hlutafélög og samvinnufélög. Nú leikur mér forvitni á að vita, hvernig skatturinn hefur skipzt á þessa aðila.

Það er kunnugt, að fyrir hlutabréf, sem ég kann að eiga í hlutafélagi, verður hlutafélagið að borga skattinn. Og það hafa margir rekið upp stór augu, þegar þeir sáu, að verðlítil hlutabréf eru stórsköttuð á þennan hátt, jafnvel langt fram yfir verðmæti bréfanna.

Ég vona, að hæstv. ráðh. svari því, hvernig skatturinn skiptist milli þessara þriggja aðila, sem tilgreindir eru á þskj. 289.