19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3627)

149. mál, veitingasala í Þjóðleikhúsinu

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn um það til hæstv. menntmrh., hvers vegna aðstaðan til veitingasölu í þjóðleikhúsinu hafi verið seld á leigu.

Það flaug fyrir í haust, er kunnugt varð, að mikill rekstrarhalli mundi verða á þjóðleikhúsinu, að það hefði jafnvel hvarflað að ýmsum ráðamönnum, að jafnvel væri rétt að selja þjóðleikhúsið á leigu til einkarekstrar. Þessi orðrómur hefur þó ekki enn þá hlotið staðfestingu reynslunnar. En hins vegar hefur það gerzt, að sá eini þáttur í starfsemi leikhússins, sem rekinn var með ágóða, að því er mér er tjáð, veitingasalan, hefur nú af þjóðleikhússtjórninni verið leigður einstaklingi.

Veitingar hófust í þjóðleikhúsinu 20. apríl 1950. Mér er tjáð, — og hygg ég, að það sé rétt, — að fyrstu 11 mánuðina hafi ekki verið hægt að koma öðrum veitingum við en gosdrykkja- og sælgætissölu. Þetta stafaði af því, að sá hluti hússins, sem til veitingastarfseminnar var ætlaður, var þá ekki fullbúinn — og sízt af öllu þeim tækjum búinn, sem til almennrar og fjölþættrar veitingasölu eru nauðsynleg. Það mun hafa verið fyrst í júníbyrjun í sumar, að útbúnaði hússins til veitingastarfsemi var svo langt komið, að hægt væri að koma við að taka upp kaffiveitingar til leikhúsgesta.

En til skamms tíma stóðu sakir þannig — og standa máske að einhverju leyti enn, — að borgarlæknir vildi ekki heimila, að matarveitingar færu fram í þjóðleikhúsinu. Eftir því sem ég bezt veit, mun ekki hafa verið gengið að fullu frá útidyrum leikhúskjallarans og ekki heldur frá aðstöðu til hreinlætis í sambandi við eldhús og geymslur. Einnig var mestallan þennan tíma unnið að innréttingu, eldhússins, og kostar slíkt að vonum mikið og er tímafrekt, eins og allir þekkja, sem eitthvað eru kunnugir byggingum.

Þegar lokið er að fullu eldhúsinnréttingu og öðrum útbúnaði til veitinga, og svo mun nú vera um þessar mundir eða hvað af hverju, er svo ráð fyrir gert, að matsala geti átt sér stað þarna og veizlur sé hægt að hafa þarna með 250–300 gestum, og er allur borðbúnaður, sem þjóðleikhúsið hefur látið kaupa, miðaður við þá tölu gesta.

Það er því fyrst nú, sem unnt er að hefja alhliða veitingastarfsemi í þjóðleikhúsinu, og þá — og þó nokkru fyrr — er það ákveðið af þjóðleikhússtjórn að hætta veitingum fyrir reikning hússins og leigja heldur veitingaaðstöðuna með öllum áhöldum fyrir 10 þús. kr. á mánuði.

Nú er augljóst af framansögðu, að allan þann tíma, sem þjóðleikhúsið hafði sjálft veitingasöluna, að svo miklu leyti sem við varð komið, var aðstaðan hin versta og því engin von til, að þessi starfsemi skilaði slíkum arði, er af henni mætti vænta síðar, er aðstaða væri fyrir hendi til fjölþættari starfsemi.

En varð þá tap á veitingum þennan tíma? Einhverjir kynnu að ímynda sér það. — Nei, þrátt fyrir alla byrjunarörðugleika og skort á aðstöðu er mér tjáð að fyrstu 11 mánuðina, meðan aðeins var hægt að selja sælgæti og gosdrykki, hafi nettóágóði hússins orðið 132578.34 kr., eða um 12000 kr. á mánuði. Þá hefur mér einnig verið tjáð, að þær 5 vikur (frá 1. júní í sumar til 7. júlí), sem kaffiveitingum varð við komið auk gosdrykkja- og sælgætissölunnar, hafi nettóhagnaður orðið 34367.50 kr. — eða ca. 26100 kr. á mánuði. Tekjur alls 12 fyrstu mánuðina urðu þannig 166945.84 kr. — Má ætla, að enn hefði hagnaður aukizt verulega, er matarveitingar gætu bætzt við og þannig unnt að nota til fulls þá aðstöðu, sem fyrir hendi var, er allt var tilbúið.

Þegar á þetta allt er litið, virðist mér það vafasamt, hvort leikhússtjórnin hafi gert rétt í því að hætta rekstri veitinganna og selja veitingaaðstöðuna á leigu. Að leigja slík verðmæti lausafjár, sem þjóðleikhúsið hafði þarna bundið í dýrindis húsgögnum og borðbúnaði, tel ég líka vafasama ráðstöfun leikhússtjórnar og er þeirrar skoðunar, að borðbúnað og allt slíkt hefði heldur átt að selja, er húsið sjálft hætti rekstrinum. Þá getur það í þriðja lagi naumast verið á valdi leikhússtjórnar að hafa vald á því, hvers konar samkomur verða haldnar í þessum húsakynnum þjóðleikhússins, þegar þessi aðstaða öll hefur nú verið seld einstaklingi á leigu. Tel ég það eitt út af fyrir sig vera miður farið.

Langar mig nú til að heyra af vörum hæstv. ráðh. (BÓ), hvaða knýjandi nauðsyn hafi borið til þess — séð frá sjónarmiði þjóðleikhússtjórnar — að leigja einstaklingi einmitt þennan einasta þátt í starfsemi þjóðleikhússins, sem skilaði arði og átti þó við erfið byrjunarskilyrði að búa.