19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (3629)

149. mál, veitingasala í Þjóðleikhúsinu

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hafði ekki ástæðu til að kvarta undan því, að ræða mín væri löng, því að ég talaði ekki nema í 5 mínútur. Ég vil leyfa mér að þakka svar hans, þótt stutt væri. en hann er auðsjáanlega ánægður með þetta nýja fyrirkomulag á veitingasölunni. En ég get ekki skilið, hvers vegna hæstv. ráðh. getur verið ánægður, þegar tekjurnar voru 12 þús. á mánuði, meðan sælgætis- og gosdrykkjasalan fór fram, og milli 20 og 30 þús. eftir að kaffiveitingar hófust. Það er álit mitt, og tel ég það byggt á fyllstu rökum, að eftir að aðstaða varð til matsölu í leikhúskjallaranum og hægt er að leigja hann út til veizluhalda, muni þessi ágóði enn hafa getað aukizt til stórra muna. En nú er þetta húsnæði leigt einstaklingi fyrir 10 þús. kr. á mánuði. Þetta telur hæstv. ráðh. heppilegt, en ég get ekki séð, að hér sé um neinn gróða að ræða. Nei, það er síður en svo.

Ég lét einnig í ljós þá skoðun mína, að ég teldi ekki vel til fallið, að leikhússtjórnin réði ekki yfir allri starfsemi, sem fram fer í húsinu. Eins og málum er nú komið, virðist ekkert vera því til fyrirstöðu, að í leikhúskjallaranum fari fram almennar danssamkomur.

Það vakir ekki fyrir mér með þessum orðum mínum að ráðast á þann einstakling, sem nú hefur tekið þetta húsnæði á leigu. Ég þekki hann og veit, að hann er í alla staði mjög fær í sínu starfi. En hvað sem þessu líður, tel ég ekki rétt að leigja hinn dýrmæta borðbúnað þjóðleikhússins.

Ég er sem sagt þrátt fyrir hið stutta og laggóða svar hæstv. ráðh. (BÓ) hræddur um, að hér sé um að ræða spor í ranga átt.