19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (3630)

149. mál, veitingasala í Þjóðleikhúsinu

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Ég hygg, að það hljóti að liggja í augum uppi, að það eru ýmsir erfiðleikar í sambandi við greiðasölu í kjallara þjóðleikhússins, og með tilliti til þess var sú ákvörðun tekin að selja húsnæðið einstaklingi á leigu.

Það er rétt hjá hv. þm. (HV), að allmikill ágóði hefur orðið af þessari veitingasölu. Hv. þm. talaði um, að allmikill ágóði hefði orðið af gosdrykkja- og sælgætissölu, og gaf í skyn, að enn meiri ágóði mundi verða nú, er skilyrði væru fyrir hendi til fjölbreyttari veitingasölu. Við þessu gef ég það svar, að þegar átti að fara að auka þessa starfsemi, var nauðsyn að fjölga starfsfólkinu allverulega, og eins og að líkum lætur, hefði það haft í för með sér aukinn rekstrarkostnað. Þegar alls þessa er gætt, taldi ég réttast að vera því samþykkur að hætta að láta þjóðleikhúsið annast þennan rekstur sjálft, en selja hann einstaklingi í hendur. Ég taldi þetta rétt, enda þótt það hefði í för með sér, að leigja þyrfti borðbúnað og önnur áhöld veitingasölunnar, því að með þessu gerir þjóðleikhúsið ekkert annað en hirða ágóðann og losnar við allt vafstur, sem fylgir veitingasölunni.

Hv. þm. talaði um, að réttast hefði verið að selja þennan „dýrindis borðbúnað leikhúskjallarans“, svo að maður noti nú orð þm. sjálfs. En ef farin hefði verið sú leið að selja áhöldin, þá hefði það þýtt það sama og loka kjallaranum, en það hefur engum dottið í hug.