16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (3634)

159. mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég er ekki fær um að halda hér eins snjalla ræðu og hv. fyrirspyrjandi hélt, m. a. af því, að talfæri mín eru í lakara lagi.

Ég mun halda mér við fyrirspurnina á þskj. 557. En það er eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, að Alþingi ákvað 24. maí 1947 að skipa nýja 7 manna n., og 14. nóv. sama ár var sú nefnd sett, og í nefndina voru tilnefndir þessir menn: Jóhann Hafstein af hálfu Sjálfstfl., Halldór Kristjánsson af hálfu Framsfl., Gylfi Þ. Gíslason af hálfu Alþfl. og Einar Olgeirsson af hálfu Sósfl. Auk þess voru skipaðir í nefndina af þáverandi ríkisstj. án tilnefningar: Gunnar Thoroddsen, Ólafur Jóhannesson prófessor og Bjarni Benediktsson, sem var formaður nefndarinnar.

Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið frá form. nefndarinnar, þá starfaði nefndin fyrst framan af til að ræða um, hvaða ákvæðum stjórnarskrárinnar helzt þyrfti að breyta og hverra nýrra ákvæða væri þörf. En það kom fljótt í ljós, að skoðun manna var sundurlaus um þetta efni. Kom helzt í ljós, að fulltrúar hinna pólitísku flokka, sem sæti áttu í nefndinni, höfðu ekki neinar till. fram að bera, vegna þess að þeir, sem sendu þá í nefndina, höfðu ekki gert sér ljóst, hvernig þeir stæðu í málinu. Og vildi þá form. stjórnarskrárnefndarinnar leita álits ríkisstj. um það, hvort hún liti svo á, að það hefði nokkra þýðingu að halda starfi áfram í nefndinni, þ. e. a. s. meðan svo var ástatt, að stjórnmálaflokkarnir höfðu ekki sjálfir markað sér afstöðu til þess, sem um er að ræða, þannig að fulltrúarnir í stjórnarskrárnefndinni kæmu fram með skoðun þeirra. Það hefur verið í samráði við ríkisstj., að störf þessarar nefndar hafa legið niðri nú alllangan tíma. Það skal og fram tekið samkv. upplýsingum form. nefndarinnar, að einstakir menn óska ekki eftir fundi í nefndinni þetta tímabil.

Nú hina síðustu mánuði sérstaklega hefur nokkur breyt. komið fram í þessu máli á þann hátt, að stjórnarflokkarnir hafa tekið málið meira, upp og komið hafa fram ákveðnar till., a. m. k. frá sumum þeirra, um einstök atriði, sem orka miklu, hvað gert er í þessu máli. Má því gera ráð fyrir, að það megi miklu fremur nú vænta þess, að grundvöllur sé fyrir hendi um, að taka megi upp störf í nefndinni aftur. Og samkv. því, sem form. nefndarinnar hefur sagt, þá hefur hann í hyggju að kveðja n. saman og freista, hvort ekki sé einhver grundvöllur til staðar innan n. til að koma fram með ákveðnar till. frá flokkum þeim, sem nm. hafa umboð fyrir, svo að hægt sé að taka þetta mál fastari tökum, og vita nú, hvort hægt sé að skila áliti frá n.

Ég get svo ekki gefið aðrar upplýsingar en þær, sem ég hef hér látið koma fram.