26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

6. mál, togarakaup ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Brtt. þessi er nýlega fram komin og lá ekki fyrir, þegar fjhn. athugaði málið. Ég tel því eðlilegt, að umr. um þetta mál verði frestað, svo að fjhn. geti athugað þessa till., áður en lengra verður gengið.

Mér finnst það skorta í till., að það komi fram, hvaða aðilar eiga að fá þessa aðstoð.

Það er oft, að það koma fram óskir um slíka ríkisábyrgð, en þá liggur það venjulega fyrir, hverjir það eru, sem slíkrar ábyrgðar óska, en hér liggur þetta ekki fyrir, eins og fram kom í ræðu hv. flm. Ég tel rétt, að þetta liggi fyrir, og enn fremur, að þessi brtt. verði lögð fyrir fjhn. til athugunar.