11.12.1951
Neðri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (3655)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til að beina fyrirspurnum til hv. fjhn. d. varðandi afgreiðslu nokkurra mála, sem sú hv. n. hefur til meðferðar.

Meðal fyrstu mála, sem útbýtt var á þessu þingi, er frv. á þingskjali 8, 8. mál þingsins, frá okkur þremur þingmönnum Alþfl. í þessari hv. d., um breyt. á l. nr. 35 27. apríl 1950, um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm, þar sem gert er ráð fyrir, að fjárhagsráð skuli taka á ný upp verðlagseftirlit. Hv. fjhn. hefur nú haft meira en tvo mánuði til að fjalla um þetta mál. Frá henni hefur enn ekki neitt heyrzt um málið.

Meðal fyrstu mála þingsins var einnig frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem ég flutti. Þar er gert ráð fyrir þeirri breyt. á tekju- og eignarskattsl., að hvort hjóna um sig skuli vera sjálfstæður skattþegn. Fjhn. hefur einnig haft um það bil tvo mánuði til þess að fjalla um þetta mál án þess að láta nokkuð frá sér heyra um það.

Áður en hálfur mánuður var liðinn af þinginu, fluttum við fjórir Alþfl.-þm. í þessari hv. d. frv. um breyt. á tekju- og eignarskattsl., um allmikla hækkun á persónufrádrætti. Um þetta frv. hefur ekkert heyrzt heldur frá hv. fjhn.

43. máli þingsins, sem er frv. okkar fjögurra þm. Alþfl. um útvegun fjár til byggingar verkamannabústaða, var og vísað til hv. fjhn. þessarar d., þegar um það bil hálfur mánuður var liðinn af þingtímanum. Síðan eru liðnar um sjö vikur, án þess að hv. n. hafi nokkuð látið frá sér heyra um þetta mál.

Þessi fjögur mál öll eru mikilvæg. Miklar umr. hafa orðið um þau, og lögð er mikil áherzla á af okkur flm., að þau verði afgr. Það mun og vafalaust vekja nokkra athygli, hvaða afgreiðslu þau hljóta. — Hvað snertir frv. um breyt. á skattal. í þá átt að láta hvort hjóna um sig vera sjálfstæðan skattþegn, þá hefur Alþ. borizt fjöldi áskorana um að samþ. það. Þess vegna gegnir furðu, hve mikið tómlæti hv. n. hefur sýnt um afgreiðslu þess máls. Eitt er að samþ. ekki mál og annað að láta þau fá þinglega meðferð. — Ég vil spyrja hv. fjhn., hverju það sæti, að ekkert hefur heyrzt um þessi mál.