11.12.1951
Neðri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (3656)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Út af þessari ræðu hv. 3. landsk. þm. skal ég taka fram, að það mun rétt vera hjá hv. þm., að það er eitthvað af málum hjá fjhn. Ég minnist þess, að nú fyrir fáeinum dögum kom einn nefndarmanna, flokksbróðir hv. 3. landsk. þm., að máli við mig og talaði um það, að honum þætti æskilegt, að eitt af þessum málum, sem hv. 3. landsk. þm. var að tala um, yrði tekið til afgreiðslu í n. hið fyrsta, og geri ég ráð fyrir, að það verði tekið fyrir á næsta fundi. Það hefur ekki verið fundur í n. síðan þetta samtal fór fram. — Um hin málin get ég ekki sagt að svo stöddu, hvenær megi vænta álits frá n. um þau.