17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (3663)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Rang. tók fram, að mál þetta hefur legið lengi hjá fjhn. Og hv. 1. flm. þess hefur áður fært það í tal við mig, hvað liði þessu frv., sem gerir ráð fyrir framlögum til raforkusjóðs úr ríkissjóði. Nú er það svo, að við afgreiðslu fjárl. hækkaði nokkuð þetta framlag ríkisins til raforkusjóðs, en hins vegar sá Alþ. sér þá ekki fært að hækka þá upphæð eins mikið og gert er ráð fyrir í frv. þeirra fjórmenninganna. Og þar sem sjáanlegt var, að þingið taldi ekki fært að veita svo miklu fé til sjóðsins, þá var varla von, að fjhn. gæti mælt með málinu, og því hefur það legið svo lengi hjá nefndinni.