24.01.1952
Sameinað þing: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (3704)

Þinglausnir

forseti (JPálm):

Það Alþingi, sem nú er að ljúka störfum, hefur orðið styttra en verið hefur með undanfarin þing. Þetta stafar þó ekki af því, að það hafi afkastað minna verki. Störfin hafa gengið greiðar en oftast áður, og er aðalorsökin sú, að nú hafa engar stórar deilur staðið um ríkisstjórn.

Mikið af þeirri löggjöf, sem þetta þing hefur sett, hefur verið afgreitt með almennu samkomulagi. Um annað hafa staðið verulegar deilur eins og áður og svo sem við er að búast. Skal og ekkert út í það farið hér. En ég vil fyrir hönd Alþingis óska þess, að þau lög, sem þetta þing hefur sett, og þær ákvarðanir, sem það hefur tekið, megi verða þjóð vorri til hamingju.

Ég vil líka fyrir hönd Alþingis nota þetta tækifæri og óska allri íslenzku þjóðinni hamingju á þessu nýbyrjaða ári. Ég óska þess, að við fáum að njóta betra árferðis og meiri farsældar fyrir atvinnuvegi landsins til sjávar og sveita en verið hefur um skeið. Og ég óska vaxandi samheldni og betri samvinnu gegn þeim örðugleikum, sem landsfólkið á við að etja.

Háttvirtum alþingismönnum, hæstv. ríkisstjórn og starfsfólki þingsins vil ég þakka fyrir vinsamlega samvinnu við mig sem forseta. Óska ég þeim öllum góðs gengis. Utanbæjarmönnum óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu, og ég óska þess okkur öllum til handa að mega heilir hittast á næsta hausti og fá þá í hendur ánægjulegri og auðveldari viðfangsefni en verið hefur á undanförnum þingum.