14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (3732)

51. mál, mótvirðissjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði um skilning hans á gildi þáltill. Hann sagði, að þessi viljayfirlýsing Alþ. væri svo sterk, að „l. ættu ekki að geta gengið í berhögg við hana.“ Ég held, að ég hafi skrifað þetta rétt. Þál. er auðvitað alltaf viljayfirlýsing Alþ. Þessi þál. getur varla út af fyrir sig haft meira formlegt gildi en aðrar þál. Jafnvel þó að svo og svo sterkur vilji, þ. e. a. s. svo og svo mörg atkv., liggi á bak við hana, er hún auðvitað ekki sterkari en aðrar þál. Í sambandi við þann skilning á l., sem nú er, að l. séu rétthærri en þál., þá er hér um að ræða þál. með sérstökum hætti og sérstökum styrkleika. Þetta held ég, að geti ekki verið rétt. Þó að málefnið sé gott, þá held ég, að hún geti ekki verið sterkari en aðrar þál., hvað formlegt gildi snertir. — En hitt er annað mál, hvað mikið pólitískt fylgi mál hefur, þ. e. a. s., það getur verið pólitískt sterkt, en það snertir aðra hlið málsins. Ég álít, að það verði að fást úr því skorið, að þessi þál. getur aldrei verið annað en aðeins viljayfirlýsing Alþ., en aldrei gengið í berhögg við l., og að l. hljóti að geta afnumið stefnu hennar. Og þetta verða þeir að gera sér ljóst, er að þessu máli vilja vinna, að það er ekki hægt að tryggja ráðstöfun mótvirðissjóðs með þessum hætti. Það er aðeins hægt að ráðstafa fé úr mótvirðissjóði með l., en ekki með þál. — Ég vildi láta þetta koma fram núna, svo að ekki yrði klúður út af þessu seinna.

Ég skal svo aðeins minnast á atriði í ræðu hv. þm. Borgf. Ég er honum sammála um það, að landið er enn þá að miklu leyti ónumið. En þegar hann ræddi um það að gera ráðstafanir fram í tímann í þá átt, að fleiri ynnu að landbúnaði en landið byggja nú, þá held ég, að það sé ekki rétt stefna í atvinnumálunum næstu áratugina að beina öllum fólksstraumnum í landbúnað, því að þótt landið geti framleitt nóg, ef við fáum nóg köfnunarefni til að bera á okkar jörð, þá verðum við að gá að því að halda réttum hlutföllum milli atvinnuveganna. Og til þess að allt gangi vel, þá verðum við að kunna að blanda saman landbúnaði, stóriðju og sjávarútvegi. Vil ég t. d. minnast á þjóð, sem við hv. þm. erum ekki sammála um, þ. e. Bandaríkjamenn, sem eru mesta landbúnaðarþjóð í heiminum. Sá hluti þeirrar þjóðar, sem vinnur að landbúnaðarframleiðslu og framleiðir miklu meira en nóg fyrir sína þjóð, er aðeins 12%. Það er auðséð, að þjóðartekjur og auður einnar þjóðar hagnýtist bezt með því móti, að rétt blanda og jafnvægi sé milli atvinnuveganna. Þess vegna held ég, að okkur vanti stóriðju, sem mundi gera það að verkum, að bændur, fiskimenn og verkamenn mundu hljóta betri lífsskilyrði en ella. Fossaflið er fyrir hendi, og stóriðja mundi geta skapað meiri tekjur í þjóðarbúskapinn en bændur og fiskimenn eingöngu gætu gert. Því held ég, að við eigum að reikna með því að ráðstafa verulegum hluta fjárins til að skapa stóriðju á næstu árum. Það mundi auka vöxt landbúnaðarins, ef okkur tækist að skapa stóriðju; þá gætum við fengið yfirdrifinn áburð og afl með því að nota fossa okkar. Því aðeins, að lagt sé fé í orkuver þetta, er hægt að veita aflinu ódýrt aftur í landbúnaðinn og iðnaðinn. Held ég, að það væri mjög misráðið, ef við ættum að ráðstafa öllum sjóðnum nú og með því beina öllum fólksstraumnum í eina átt, því að við skulum gera okkur það ljóst, að fólksstraumurinn til sveitanna stendur í sambandi við fé það, sem lagt er í landbúnaðinn. Og hér er ekki um hugarfarsbreytingu hjá fólki að ræða, heldur er það skipulagt hungur, sem beinir fólkinu í þá átt. Því er neitað um vinnu í bæjunum og því er neitað um vinnu við togarana, svo að það geti aukið útflutning sinn. Með slíku skipulögðu hungri á að reka fólkið til sveitanna og þá til að hokra þar og lifa eymdarlífi eða gerast vinnuhjú, því að það fær ekki lán til að reisa sín eigin bú. En það er ekki það, sem fólk óskar eftir, að fara upp í sveit til að gerast vinnuhjú. Því held ég, að ef við ætlum að vinna af alhug og einlægni að þessu máli, þá getum við ekki afgreitt það á þennan hátt og með þessari þáltill., allra sízt á þann hátt, að við með því bindum hendur löggjafarvaldsins að því er snertir ráðstöfun fjár úr mótvirðissjóði.