23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (3742)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Þrátt fyrir þær umr., sem hafa orðið um þetta mál, hef ég ekkert lagt til málanna fram að þessu, heldur hef ég hlustað á umr. og rök með og á móti. Það hefur vakið athygli mína, að bent hefur verið á það hvað eftir annað, að þetta álag, sem reiknað er eftir mati fasteigna, hljóti að koma rangt niður, þegar það er lagt jafnt á fasteignir, sem aðili á aðeins að nafninu til, þegar hann skuldar þær að mestu, og þær eignir, sem menn eiga skuldlausar og eru þess vegna vel umkomnir að bera slíkan skatt. Mig furðar, að þessum rökum skuli ekki vera sinnt í þessum umr. Það er talað um í þessu sambandi að leggja þennan skatt á eftir efnum og ástæðum, eins og hv. þm. S–Þ. hamraði á. Ég held, að hann geti ekki sagt þetta í fullri alvöru. Það er hægt að segja, að það sé ærin ástæða til að leggja skatt á mann, að hann eigi hús. En það er ekki ástæða til þess, þó að hann eigi hús aðeins að nafninu til. Menn telja sig sjálfsagt betur setta með því að eiga hús, en þeir eru verr settir, ef þeir geta ekki haldið því, með þeim tekjum, sem þeir hafa. Það eru einmitt slík rök sem þau, sem hv. þm. S–Þ. vakti athygli á, sem eru ekkert annað en tyllirök. Til stuðnings frv. mætti nefna það, sem hæstv. landbrh. nefndi, að þótt erfitt væri að greiða þessa skatta, þá fengjust þeir dregnir frá útsvarinu. Þessi rök eru ljóst vitni um, hve léleg ástæða liggur að baki þessu frv.

En tilgangur minn með því að fara að tala er ekki sá að fara að karpa við þá, sem búnir eru að tala, heldur tel ég ástæðu vera til þess að sinna betur þeim rökum, að þessi skattur sé ekki lagður jafnt á alla, sem taldir eru eiga fasteignir, heldur tekið tillit til efna og ástæðna. Ég legg því fram brtt. við 2. gr. frv. um, að við þessa grein bætist nýr málsliður, svo hljóðandi: „Álaginu má þó aðeins beita á skattstofnana að því leyti, sem ekki hvíla á þeim veðskuldir.“ Ég tel, að með því móti að taka tillit til skulda sé verjandi að taka þennan skatt upp, þó að ég sjái ekki ástæðu til að fara inn á þessa braut, heldur leggja skatt á þá, sem eiga eignir. En ef farið er inn á þessa braut, er óhjákvæmilegt að taka tillit til skulda, svo að ekki sé ráðizt að þeim, sem með erfiðismunum hafa byggt yfir sig og berjast nú við að geta haldið eignum sínum á sínu nafni. Sú barátta er nógu erfið, þó að löggjafarvaldið sé ekki að auka á erfiðleikana með þessari skattaálagningu.

Ég leyfi mér svo að leggja þessa brtt. til hæstv. forseta.