06.12.1951
Efri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

6. mál, togarakaup ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er mál til komið, að bent sé á, inn á hvaða braut er verið að ganga í þessum málum. Og gaf það aðaltilefnið til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, að hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að þetta hafi verið gert að vel athuguðu máli og fengnir hafi verið tveir sérfróðir menn til að athuga það. Ég skal ekki ræða mikið um það, hvaða menn voru valdir. Sú skoðun mín á þessu máli hefur ekki breytzt, að hér sé verið að fara inn á braut, sem sé ekki til að bjarga málinu. Ég vil aðeins benda á það, að ef hægt er að láta þessa togara bera sig fjárhagslega, hvers vegna gerðu þeir menn, sem þá áttu, það þá ekki? Hvers vegna gerðu þessir menn ekki togarana út sjálfir? Vegna þess að reynslan hefur sýnt, að útgerð þessara skipa hefur alltaf verið dauðadæmd. Held ég því, að ríkisstj. hafi átt að athuga þetta betur. Ég vil einnig benda á það, að Höfðakaupstaðartogarinn, sem átti að vera tilbúinn í júní, var afhentur í nóvember, og eigandinn, sem seldi í klössuðu ástandi, mun ekki hafa fengið einn eyri, því að kostnaður reyndist meiri en söluverð. Þetta skip hefði mátt seljast út úr landinu sem brotajárn á 6–7 þús. £. Nú er þetta skip komið á veiðar, og tel ég vafasaman hagnað fyrir þennan stað að fá skipið til þess að gera það út með rekstrarhalla. Það er sýnilegt nú, að jafnvel með nýjum, ágætum togurum berjast menn í bökkum við að fá þá til að bera sig. Hver á þá að greiða þennan rekstrarhalla, sem hér er um að ræða? Þessi héruð eru mjög fátæk. eins og t.d. Höfðakaupstaður, sem ekki getur staðið skil á greiðslum af lánum, sem hann hefur fengið. Ætti því öllum að vera það ljóst, að hér er verið að halda inn á hála braut. Ég tel því, að þeir menn, sem hæstv. ráðh. afhenti mál þetta til rannsóknar, hafi ekki gefið ríkisstj. rétta skýrslu um það.