17.12.1951
Efri deild: 45. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

117. mál, tekjuskattsviðauki, lækkun skatts af lágtekjum o. fl.

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. fjhn. tók fram, er hér um að ræða framlengingu á l., sem framlengd voru á fyrra ári, en var þá látið í veðri vaka, að yrði í síðasta sinn. Það er öllum þm. kunnara en frá þurfi að segja, að er þessi l. voru samþ. í fyrsta sinn, var gert ráð fyrir, að þau giltu í aðeins eitt ár. Var þetta gert í sambandi við verðlagsmálin og var fyrst nefnt verðlækkunarskattur og síðan tekjuskattsviðauki, en síðan hefur þessi liður orðið að föstum tekjustofni ríkissjóðs. Hins vegar tel ég óhæfu, að þessi skattur verði framlengdur í meira en eitt ár nú, og ég er því ósamþykkur, að þetta frv. nái fram að ganga nú, nema trygging verði fyrir því, að skattalögin verði endurskoðuð fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Ég hef gefið út minnihlutaálit um þetta, sem prentað er á þskj. 446. Mér er það vel ljóst sem form. fjvn., að fjárlögin þola ekki, að þessir tekjustofnar verði teknir út nú, og ég er ekki tilbúinn að benda á nýja tekjustofna. Fylgi mitt við þetta frv. er aftur á móti bundið því, að skattalöggjöfin verði endurskoðuð og niðurstöður og till. þeirrar rannsóknar verði lagðar fyrir næsta þing. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að á síðasta þingi bar ég fram brtt. við frv. til l. um breyt. á l. nr. 6 9. jan. 1935, um tekjuskatt og eignarskatt. Lagði ég til, að skattalögin yrðu felld úr gildi frá 1. jan. 1952. Enn á ný hef ég borið fram frv. um sama efni, að skattalögin falli úr gildi um áramót 1952–53, en nefndin hefur ekki viljað fallast á þetta sjónarmið og ekki einu sinni viljað fallast á, að frv. yrði þannig breytt, að ríkisstj. yrði skylt að láta fara fram endurskoðun á skattalögunum. Í þessa sambandi vil ég einnig benda á, að nú liggja fyrir þinginu a.m.k. 7 frv. um breyt. á skattalögunum og leiðréttingar á þeim. Sú mergð af frv. um breyt. á þessum l. ætti að sýna það hvað gleggst, hve brýn nauðsyn það er, að endurskoðun þessarar löggjafar fari fram sem allra fyrst. Þáltill. liggur einnig fyrir þinginu varðandi málið, en þótt hún yrði samþ., þá er hún ekki eins trygg og ef ríkisstj. yrði skylduð með löggjöf að láta endurskoðunina fara fram. Hún kemur því að litlu haldi, nema ráðh. gefi yfirlýsingu um það, að hann láti endurskoðunina fara fram. Ef hæstv. fjmrh. vill nú lýsa því yfir, að hann muni láta þessa endurskoðun fara fram á næsta ári, mundi ég geta fallizt á að taka brtt. mína til baka, m.a. vegna þess ef hægt væri að samræma þær kröfur, sem komið hafa fram hér á Alþ. Ætti þá að vera hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að leggja fram till. sínar fyrir næsta Alþingi. Að öðru leyti get ég fylgt þessu máli.