22.10.1951
Neðri deild: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég vil víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. fjmrh. Að vísu hefur hv. 3. landsk. þm. tekið af mér ómakið að mestu, og get ég því verið stuttorður.

Hæstv. fjmrh. heldur því fram út af framlengingu söluskattsins, að ekki sé unnt að afgreiða hallalaus fjárlög nema framlengja söluskattinn með 7% álagi, og spyr okkur, hvað sé hægt að fella niður af fjárlögum og hvaða nýjar leiðir við viljum benda á til að afla fjár í ríkissjóð í staðinn. Gæti ég að vísu vísað til hv. 7. þm. Reykv., sem er stuðningsmaður ríkisstj., þar sem hann sagði, að það væri skylda fjármálastjórnarinnar að sjá útvegi, þegar hætt væri að taka óréttláta skatta til ríkissjóðs. Ég get líka tekið undir þær athugasemdir hv. 3. landsk. þm., að það er ekki auðveit við þessa umr. málsins að benda á ótvíræða og glögga leið við afgreiðslu fjárlaga, sem sé miðuð við að afgreiða þau tekjuhallalaus, þó að söluskattur væri felldur niður. Þetta er stórt og mikið mál, og ég veit, að hæstv. fjmrh. getur varla til þess ætlazt, að við Alþfl.-menn getum á þessari stundu bent á með nákvæmum tölum, hvernig væri hægt að afgreiða fjárlög tekjuhallalaus með því þó að sleppa söluskattinum. En eins og ég tel þá fullyrðingu órökstudda, að þetta sé ekki hægt, svo sem hæstv. fjmrh. sagði, — en hann rökstuddi á engan hátt þ:í fullyrðingu sína, — að ómögulegt væri að afgreiða fjárlög án tekjuhalla, ef söluskattur félli niður, þá getum við Alþfl.- menn sagt með engu minni rökum, að það sé engu siður hægt með öðrum aðgerðum að afgreiða fjárlög tekjuhallalaus, þó að dregið sé verulega úr söluskattinum. Fyrst og fremst má benda á það, eins og hv. 3. landsk. þm. tók fram, að tekjur til ríkissjóðs munu mjög varlega áætlaðar á fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir, svo varlega, að allar líkur benda til þess, að þær verði miklum mun meiri en þar er áætlað. Þetta atriði hlýtur því að gera nokkuð stórt strik í reikninginn, þegar talað er um að afnema eða draga úr söluskattinum. Í öðru lagi má benda á, eins og hv. 3. landsk. þm. sýndi glögglega fram á, að ef söluskatturinn er felldur niður eða dregið er úr honum, hefur það í för með sér beinan sparnað á útgjöldum ríkisins, því að söluskatturinn orkar mjög á allt verðlag í landinu til hækkunar. Það þýðir, að eftir þeirri stefnu, sem fylgt er varðandi kaupgjald og launagreiðslur, gæti orðið hér lækkun, ef söluskatturinn lækkaði, þar sem dýrtíðin mundi annaðhvort standa í stað eða jafnvel lækka, ef slíkar ráðstafanir væru gerðar. Svo má líka benda á það, að ég hygg, að það sé hægt með breytingum á öllu skattakerfinu — og þá kannske ekki sízt með breytingum á lögum um tekju- og eignarskatt — að gera þær ráðstafanir, að tekjulindirnar verði mun drýgri fyrir ríkissjóð en nú. Það er kunnara en frá þurfi að segja og opinbert leyndarmál, að verulegur hluti af tekjum hátekjumanna sleppur undan skatti vegna ákvæða skattalöggjafarinnar og vegna lélegra framkvæmda á skattalögunum. — Fyrir tveimur eða þremur árum var skipuð milliþinganefnd til þess að endurskoða tekju- og eignarskattslögin. Sú mþn. starfaði töluvert um tíma og að því er ég hygg vel. Hún lagði frv. fyrir hæstv. ríkisstj. Ég held, að eitt af ákvæðum þessa frv. hafi miðað að því, að tekjuskatturinn innheimtist betur en áður. Ég hef oft beyrt, bæði af ræðum framsóknarmanna og málgögnum þeirra fyrr og síðar, að nauðsyn væri að gera ráðstafanir til þess, að tekjuskattsinnheimtan gæti orðið betri en hún hefur verið um skeið. Nú hefur einn höfuðforustumaður Framsfl. tekið sæti fjmrh. í ríkisstj. og setið þar rúmlega hálft annað ár. Ég hefði því getað búizt við samkvæmt yfirlýsingum hans og hans flokksbræðra, að hann hefði látið eitthvað að sér kveða um endurbætur á skattalögunum yfirleitt. En á því Alþingi, sem nú situr, hefur ekkert komið frá hæstv. ríkisstj. annað en þau hæstu fjárlög, sem lögð hafa verið fram á Alþingi Íslendinga, framlenging á skattalögunum, sem áður voru ákvörðuð, og brbl. svo að skiptir tugum. Ég man satt að segja aldrei eftir því að hafa séð jafnfáskrúðugan akur stjórnarfrv. á Alþingi eins og nú er, fáskrúðugan að því leyti, að þar er ekki um nein nýmæli eða endurbætur löggjafarinnar að ræða, heldur geysihá fjárlög og framlengingu hárra skatta, sem áður hafa verið í landinu. Það mun nú vera sá góði ásetningur hæstv. ríkisstj. að ljúka þingi fyrir áramót og afgreiða fjárlög fyrir þann tíma. Síðan getur hún þá tekið til sinnar fyrri iðju að gefa út brbl. til þess að geta lagt eitthvað fyrir Alþingi, þegar það kemur saman næst. Ég held, að nú séu það 12 eða 14 brbl., sem lögð hafa verið fyrir. En þegar hæstv. ríkisstj. fær fri frá nagginu í okkur um áramót, getur hún tekið til sinnar löggjafariðju og bundið svo sína stuðningsmenn til að fylgja þeim lögum, sem hún setur. Þetta virðist vera stefna hæstv. ríkisstj. Það er afar óþingræðisleg stefna, ódemókratísk stefna, sem hún fylgir í þessum efnum.

Hæstv. fjmrh. talaði um — og hefur reyndar gert það áður, bæði í sinni fjárlagaræðu og oftar — að það hafi ekki orðið nein sérstakleg hækkun á sköttum eða útgjöldum ríkisins frá árinu 1949 til 1952, miðað við fjárlög, eða hækkunin hafi numið eftir athugun á reikningum um það bil 19%. — Það er ágætt að fá tækifæri til þess nú að benda hæstv. fjmrh. á, að þessi fullyrðing hans er byggð á heldur vafasömum forsendum. Ég er satt að segja undrandi yfir því, að hann skuli hafa leyft sér að endurtaka þetta, því að þessi samanburður er byggður á ríkisreikningi ársins 1949 og áætlun fyrir 1952. Nú veit hæstv. fjmrh. það eins vel eða jafnvel betur en flestir aðrir, jafnlengi og hann hefur setið í fjmrh.-sæti, að oft vill skakka nokkru og breytast frá áætlun fjárlaga þar til fjárlögin eru uppgerð með ríkisreikningi. Það er ekki hægt að bera eðlilega saman ríkisreikning ársins 1949 og ríkisreikning ársins 1952, fyrr en árið 1952 er liðið. En hræddur er ég um, að það verði meir en 19% hækkun, sem kemur í ljós, þegar reikningar ársins 1952 eru uppgerðir og bornir saman við reikninga ársins 1949. Vildi ég þess vegna ráðleggja mínum gamla og góða samstarfsmanni, hæstv. fjmrh., að haga ekki samanburði sínum á þá leið, sem nú hefur verið gert. Hann er allt of rökfastur maður og glöggur til þess að grípa til slíks vopnaburðar sem hann hefur gert í þessu tilfelli.

Hæstv. fjmrh. sagði út af því, sem ég og fleiri hafa látið koma fram í umr., að í sambandi við setningu gengislækkunarlaganna hafi verið gefin fyrirheit um að létta af sköttum, að það hefðu aldrei verið gefin af honum slík fyrirheit. Ég vil ekki mótmæla þessu. Ég man ekki til þess að hafa heyrt af hans munni nokkur fyrirheit um þetta, en jafnvíst er hitt, að málsvarar gengislækkunarlaganna lögðu ríka áherzlu á það, að með þeim ca. 100 millj. kr., sem þjóðfélagið fengi með gengislækkuninni, væri hægt að létta af þeim sköttum, sem áður voru á lagðir sem dýrtíðarráðstöfun. Í grg. fyrir gengislækkunarfrv. stendur hjá hinum talnavísu hagfræðingum, með leyfi hæstv. forseta: „Við teljum, að þegar frá líður muni með varkárri fjármálastjórn verða hægt að lækka skattana frá því, sem nú er.“ Nú er liðið hálft annað ár frá því, að gengislækkunin var gerð. Ég hygg, að hæstv. fjmrh. vilji halda því fram, að þetta 11/2 árs tímabil hafi verið varkár fjármálastjórn, en ekki bólar enn á uppfyllingu fyrirheitsins um skattalækkun frá hæstv. ríkisstj., heldur þvert á móti. Þetta komst með réttu móti inn í vitund fólksins í landinu í sambandi við gengislækkunarákvæðin. Með gengislækkuninni átti að hætta að styrkja bátaútveginn, og það átti að afnema eitthvað af þeim dýrtíðarsköttum, sem áður höfðu verið mjög gagnrýndir — eða ég vil segja rægðir — og lagðir voru á á árunum 1947-49. Þetta komst inn í vitund fólksins. Það var líka svo, að í síðustu alþingiskosningum var höfuðstjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., með þá yfirlýsingu, að hætta ætti að styrkja atvinnureksturinn, nú ætti að reka styrklausan atvinnurekstur í landinu. En það brá nú svo við þrátt fyrir gengislækkun, að gerðar voru framkvæmdir, sem höfðu í för með sér fjáröflun, sem var beinn styrkur til bátaútvegsins, svo að nam mjög hárri upphæð, þar sem er hinn alkunni bátagjaldeyrir. Þó að ég sé ekki oft sammála hv. 2. þm. Reykv., vil ég taka undir það með honum, að ég tel mjög vafasöm þau atriði, að það sé nægilega traustur lagalegur grundvöllur undir framkvæmdum í sambandi við bátagjaldeyrinn og óvarlegt að framlengja söluskattinn með því að samþ. frv. á þskj. 86, sem hér liggur fyrir til umr. og er með mjög böngulegum hætti, þar sem verið er að framlengja ákvæði ákveðins kafla í áður gildandi lögum, án þess eiginlega að taka fram, hvað er framlengt og hvað er úr gildi fallið. Þessi lög eru hrákasmíði. — Hvað sem má segja um dýrtíðarlögin frá 1948, þá voru þau mjög rækilega undirbúin af færustu lögfræðingum, og þau voru skýr og ákveðin, en varðandi framlengingu ákveðinna ákvæða laga, þá er það hrákasmíði, sem ég tel örðugt fyrir fólkið í landinu að átta sig á.

Hæstv. fjmrh. sagði með nokkrum rökum, að söluskatturinn hefði fyrst verið lagður á í tíð þeirrar stjórnar, sem ég átti forsæti í og hafði þá ánægju að hafa hæstv. fjmrh. núverandi við hlið mér. Rétt er það, að lög þessi voru fyrst sett í tíð þeirrar stjórnar, sem oft hefur verið kölluð nýsköpunarstjórn, en voru með nokkuð öðrum hætti, þar sem skatturinn var lagður á dreifendur varanna, kaupsýslumennina í landinu. Það höfðu komið fram harðvítug mótmæli gegn þeim lögum, bæði af hálfu kaupsýslumanna og samvinnufélaga í landinu. Þess vegna þótti vist ekki árennilegt að leggja söluskattinn á með sama hætti og gert var í tíð stjórnar Ólafs Thors á árunum 1944–46 og ekki hvað sízt vegna mjög ákveðinna andmæla samvinnuhreyfingarinnar í landinu. Eins og hv. 3. landsk. þm. tók skýrt fram og rökstuddi, þá var söluskatturinn, sem lagður var á af þeirri ríkisstj., sem ég átti forsæti í, lagður á í alveg sérstökum tilgangi og með sérstakri grg. og með sérstökum ákvæðum. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa upp 19. gr. í lögum nr. 100 frá 1948: „Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist dýrtíðarsjóður ríkisins. Skal honum varið til þess að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru svo og greiðslum til lækkunar á vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands.“ Í tíð þeirrar ríkisstj., sem ég átti forsæti í, var söluskatturinn eingöngu lagður á í þessu skyni. Nú er söluskatturinn lagður á sem almennur eyðslueyrir ríkissjóðs, enda sagði hæstv. fjmrh., að söluskatturinn rynni nú eins og hverjar aðrar skatt- og tolltekjur beina leið í ríkissjóð og væri varið eins og hverjum öðrum tekjum, sem þangað rynnu. Þegar þar við bætist, að beint úr ríkissjóði er hætt að greiða peninga til þess að halda áfram ábyrgð á verði útfluttra afurða, hætt að verulegu leyti, að undanteknum landbúnaðarafurðum, að greiða niður verðlag á almennum neyzluvörum, þá er grundvöllurinn fallinn undan álagningu söluskattsins, miðað við það, sem gert var 1948. En þetta skýrði hv. 3. landsk. þm. svo rækilega, að ég þarf ekki að hafa um það fleiri orð. Ég held því, að þegar á það er litið í fyrsta lagi, að söluskatturinn er nú ekki lengur til þess að forðast gengislækkun eða halda niðri verðlagi á nauðsynjavörum innanlands, heldur lagður á einungis sem venjulegur skattur eða tollur til ríkisins, og þegar í öðru lagi er á það litið, að tekjuáætlun fjárlaga fyrir 1952 er ákaflega varleg, og þegar í þriðja lagi er á það litið, að söluskatturinn verkar stórkostlega dýrtíðaraukandi, eins og hv. 3. landsk. þn. sýndi fram á með tölum, þá er það krafa Alþfl. á Alþingi, að breytt verði ákvæðum um söluskattinn á þann veg, að hann verði afnuminn af brýnustu nauðsynjum almennings. Vera kynni, eins og hv. 3. landsk. tók fram, að hægt væri að hreyfa skattinn og hækka hann á miður nauðsynlegum vörum. Ég hygg, að tilfærsla á skattinum mundi ekki hafa meiri rýrnun á tekjum ríkissjóðs í för með sér en svo, að hæstv. fjmrh. gæti samt sem áður lagt fram tekjuhallalaus fjárlög. Það hefur verið fullyrðing hæstv. fjmrh., að það væri alls ekki hægt að slaka til um eyri á sköttunum, ef það ætti að vera hægt að koma saman greiðsluhallalausum fjárlögum. Ég áskil mér á seinna stigi málsins að færa að því rök, að það er hægt að koma saman greiðsluhallalausum fjárlögum án þess að hafa skatt á brýnustu nauðsynjum. Ég er sammála hæstv. ríkisstj. um það, að það er nauðsynlegt að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög, en það er ekki ástæða til þess að safna í ríkissjóð tugum milljóna króna og halda svo uppi ranglátum sköttum að óþörfu. Þarna skilur á milli mín og hæstv. fjmrh.

Ég vona, að við getum, þegar við athugum málið, verið sammála um að hafa áætlun fjárlaganna sem réttasta. Ég hygg, að hægt sé að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög, þó að lagður sé niður sá rangláti söluskattur, sem nú er lagður á og hefur breytt um eðli síðan hann var fyrst lagður á. Ég ætla að taka eitt lítið dæmi: Hv. 3. landsk. þm. tók fram og hafði undir því hagfræðilegan útreikning, að söluskatturinn mundi hækka verðlagsvísitöluna um ca. 6 stig. Ég vil minna á, að hæstv. fjmrh. sagði í fjárlagaræðu sinni hér á Alþingi, að hvert vísitölustig kostaði ríkið um 600–100 þús. kr. Þá mundi með því að afnema söluskattinn vera hægt að spara ríkissjóði um það bil 4 millj. kr. kostnað. Ég veit, að það er lélegt sjónarmið hjá hæstv. fjmrh. að vilja fylla ríkiskassann svo, að út úr flóir, hvernig sem líðan fólksins í landinu er.