23.10.1951
Neðri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði í sinni svarræðu til mín og þeirra, sem eru í stjórnarandstöðu, að það væri bezt, fyrst við værum svona óánægðir með hans álögur á þjóðina, að við kæmum með till. um það, hvernig ríkið skyldi afla sér tekna. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefur gert sér ljóst, hvað felst í þessum orðum, að hann nú biður stjórnarandstöðuna um ráð til þess að stjórna landinu. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hans séu búin að gera allt, sem þau geta, til þess að stjórna landinu og draga úr álögum á fólkið og varðveita borgara þess. Og nú gefst hann upp og segir: Nú get ég ekki neitt. Komið nú og hjálpið mér. — Ég veit ekki. hvort hæstv. fjmrh. gerir sér ljóst, hvað hann er að fara með þessu, að hann skuli nú auglýsa svona til stjórnarandstöðunnar um að koma með ráð og bjarga þessu við. Vaninn er nú sá, áður en byrjað er á svona tilmælum, að ráðherrar segi af sér, áður en þeir tilkynna, að allt sé að fara niður á við, og spyrji stjórnarandstöðuna, hvort hún geti ekki bætt eitthvað úr þessu. Mér fyndist nú viðeigandi að ræða fyrst svona mál eftir að ríkisstj. hefði sagt af sér. En ég hef hugmynd um, að ríkisstj. vilji gjarnan sitja, jafnvel þótt hún verði að þiggja ráð frá stjórnarandstöðunni. En þá verður hæstv. ráðh. að athuga, að það nægir ekki, að stjórnarandstaðan komi með tillögur um nýjar sparnaðarráðstafanir fyrir ríkissjóð. Það er meira, sem þarf að gera. Að heimta fé af almenningi er ekki nema önnur hlið málsins, önnur hliðin á því að stjórna landinu. Það, sem fyrst og fremst veltur á, er það, hvernig atvinnulífið er, að búa þannig að landsmönnum, að þeir geti greitt fé í ríkissjóðinn. Það er því ekki til neins að auglýsa eftir nýjum álögum og nýjum sparnaðarráðstöfunum fyrir ríkissjóð, nema búið sé að ræða um það fyrst, hvernig stjórna á atvinnuvegum landsins, því að undir því, hvernig atvinnulífinu er stjórnað, er það að miklu leyti komið, hvernig gengur að fá fé í ríkiskassann. Ef atvinnulífið er blómlegt, þá er alltaf auðvelt að skaffa fé í ríkissjóð, ef ríkisstj. hefur vald yfir atvinnulífinu, og þá getur verið auðvelt um annan sparnað. En það getur farið svo, að ríkisstj. brjóti niður atvinnulífið með stjórn sinni og geri ómögulegt að ná sæmilegum og réttlátum tekjum í ríkissjóð. Og það er þetta, sem hæstv. ríkisstj. er að gera. Það er ekki nóg, eins og hæstv. ráðh. virtist halda, að leggja bara á nýjar álögur og koma með nýjar sparnaðarráðstafanir. Það er skylda hæstvirtrar ríkisstjórnar að stjórna landinu þannig, að í því þróist blómlegt atvinnulíf. Þegar hæstv. ráðh. er að auglýsa eftir, hvaða ráð stjórnarandstaðan mundi hafa, þá verður hann að gera sér ljóst, að hann er að biðja um, að sér sé vísað á aðra stefnu en hann hefur sjálfur. Meginvilla hæstv. ráðh. liggur í því, að hann heldur áfram að láta leggja á landsmenn þyngri skatta í stað þess að auka atvinnulífið í landinu og bæta kjör fólksins. Það er ekki hægt að fara út í þetta án þess að ræða alla stefnu ríkisstj. í atvinnumálum og fjármálum.

Ég vil segja hæstv. ráðh. það, að það hefði verið hægt á síðasta ári og væri hægt á næsta ári að nýta þau framleiðslutæki betur, sem við höfum, t.d. togaraflotann, bæta við hraðfrystihúsum, þótt aflinn sé ekki meiri en nú í ár, til þess að framleiða til útflutnings 2–3 millj. kr. virði fram yfir það, sem nú er gert. Ég álít, að hæstv. ríkisstj. með sínu skeytingarleysi og vanrækslu að stjórna atvinnulífinu hafi eyðilagt fyrir landsmönnum verðmæti, svo að hundruðum milljóna skipti, útflutningsverðmæti, sem hægt hefði verið að framleiða. Það er vitað mál, að hægt er að framleiða miklu meiri hraðfrystan fisk með því að láta togarana leggja upp aflann í hraðfrystihúsin. Það væri hægt að skapa hér blómlegt atvinnulíf vegna þeirrar aðstöðu, sem Ísland hefur, og framleiða alveg ótrúlega mikið. Það var hægt að selja allt þetta, á sama tíma sem ríkisstj. fyrirskipaði að selja það út 30% undir því verði, sem hægt var að selja það fyrir. Er það ekki rétt hjá mér, að ríkisstj. bannaði að flytja inn ákveðna vörutegund, nema lagt væri á hana 60%? Fá kaupmenn að kaupa inn vörur sínar? Nei, það er ríkisstj., sem fyrirskipar þetta okur.

Ég sé, að hæstv. ráðherra ókyrrist í sæti sinn, þegar ég fer að taka fyrir óstjórn hans á landinu. En ríkisstj. hefur með sínum afskiptum og afskiptaleysi eyðilagt útflutningsverðmæti fyrir hundruð milljóna króna. Ég ætla ekki að fara að ræða um það núna, hvernig ríkisstj. bannaði mönnum að byggja yfir sig og sína, hvernig ríkisstj. hefur bannað mönnum að flytja inn sement og timbur. En ég ætla bara að slá því föstu, að ríkisstj. hefur gert framleiðslu landsmanna miklu minni og þar af leiðandi smám saman komið atvinnulífinu í öngþveiti og komið á atvinnuleysi. (Viðskmrh.: Það er nóg vinna.) Jæja, getur ráðh. vísað á þá staði, þar sem vantar vinnu? Þeir vita þá, hvert þeir eiga að snúa sér. Ef ráðherra getur útvegað þessum mönnum vinnu, skora ég á hann að gera það, en segja af sér ella. Ríkisstj. hefur eyðilagt atvinnulífið. Þar, sem var áður blómlegt, er nú að verða hörmungarástand. Svo framarlega sem hér væri önnur stjórnarstefna, þá mundi verða blómlegt atvinnulíf í landinu, og mundi þá vera hægt að bæta á allmiklu af þeim álögum, sem fólkið nú kiknar undan. Þetta vildi ég segja hæstv. fjmrh. um það, hvernig taka eigi tekjur í ríkissjóð. Það á að gera almenningi mögulegt að reka sína atvinnu. Það á að lofa fólkinu að framleiða í friði, það á að fá að vinna og skapa sér atvinnu. Og fólkið á að fá að vinna í friði fyrir ríkisstj.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. óskaði eftir, hvað ætti að gera til þess að útvega tekjur í ríkissjóðinn og til þess að spara, vil ég minna ráðh. á, að Sósfl. hefur gert tilraun til að koma fram með slíkt. En hvernig hefur farið um allt slíkt? Er það ekki stjórnarliðið, sem hefur fellt samstundis allt slíkt? Það mun ekki vanta viljann til sparnaðar, en þeir, sem hafa meiri hlutann á Alþingi, drepa þetta niður og bæta svo bara við útgjöldin. Það er ekki til neins að benda á þetta, þegar allt slíkt er eyðilagt. Það er hægt að benda á leiðir til sparnaðar, en ráðherra gengur ekki inn á þær leiðir, hann bara bætir við nýjum útgjöldum til þess að eyðileggja meira og stjórna landinu enn þá vitlausar. Hvað gerir ráðherra til þess að auka gróða í landinu? Af álagningunni á bátagjaldeyrinn fóru 700 þús. kr. til bátaútvegsmanna, en 2.4 millj. kr. til annarra einstaklinga. Ríkisstj. hefði t.d. eins getað tekið þessar milljónir í ríkissjóð. Það hefði verið nær en að láta þetta renna í sjóð einstakra manna. En hún vill ekki taka gróðann frá sínum gæðingum. Það er ekki til neins að benda ráðh. á slíkt.

Ef hæstv. fjmrh. væri dálítið einarðari, mundi hann segja sem svo: Áður en ég legg til að hæta við álögur á fólkið, þá er rétt að taka ofur lítið af einstaklingum og stofnunum, sem gróðanum safna. — En hæstv. ráðherra sér aldrei neina aura nema aura fátæklinganna.

Hér hinum megin við Austurvöll er stofnun, sem græðir 20 millj. kr. á ári, það er Landsbankinn. Ef Landsbankinn væri prívateign, mundi hann ekki verða skattfrjáls. Ef einstaklingur hefði tekjur á borð við Landsbankann, mundi hann greiða háan skatt. Mætti nú ekki taka ofur lítið af þessum gróða í ríkissjóð? Það er von, að það þýði lítið að benda ríkisstj. á það, hvar hún geti fengið tekjur. Allt slíkt er til lítils, því að ríkisstj. er sköpuð til þess að reyta af almenningi allt, sem hægt er af honum að reyta, að því er virðist, þannig að nú er farið að ganga að mönnum og bjóða upp kofana, sem þeir búa í, til þess að ná sköttum í ríkissjóð. Þannig er verið að ræna almenning í landinu. Þegar hæstv. ráðh. er að auglýsa eftir því, hvaða ráð séu til þess að bjarga afkomu ríkissjóðs, þá er hann að auglýsa gjaldþrot ríkisstj. sinnar og stefnu sinnar.

Hæstv. ráðh. svaraði mínum spurningum út af bátaútveginum, að ég skyldi bera fram fyrirspurn um það hér á hæstv. Alþingi. Hann sagðist ekki hafa með þetta að gera, og mér skildist, að það væri hæstv. viðskmrh., sem væri þar ábyrgur. Hæstv. ráðherra virðist ekki kæra sig um að verja þennan samstarfsmann sinn. Ég vil segja hæstv. fjmrh. það, að ég hef litla trú á að bera fyrirspurnir undir hæstv. viðskmrh., því að ef honum þykir óþægilegt að svara þeim, neitar hann því. Það hefur sýnt sig, að hann neitar að svara slíkri fyrirspurn. Það er ekki þess vert, að hv. þm. spyrji þjóna sína, ef þeir neita að gefa upplýsingar. Ég bendi hæstv. fjmrh. á, að auglýsingin um bátagjaldeyrinn er gefin út 7. marz s.l. Auglýsingin er gefin út af fjárhagsráði samkv. ósk ríkisstj., og stendur þar í byrjun: „Samkvæmt ósk ríkisstjórnarinnar og með tilvísun til samkomulags, sem hún hefur gert við Landssamband ísl. útvegsmanna hinn 24. febr. s.l., er hér með birt eftirfarandi auglýsing.“ Af þessu er augljóst, að þessi auglýsing, sem fjmrh. treystir sér ekki til að verja að sé lögleg, er gefin út samkv. ósk hans sjálfs. Þess vegna vill hann koma sökinni á hæstv. viðskmrh., þó að hann sé meðsekur, og hann upplýsir, að hann hafi ekki hugmynd um, hvort þessi ráð stjórnarinnar hafi við l. að styðjast eða ekki.

Hæstv. fjmrh. kallaði fram í umr. áðan, er ég benti á, að það væri skynsamlegra að létta á álögunum á almenningi, „að það væri léleg forretning“. Það er „léleg forretning“ að létta á álögunum á almenningi, ef það sleppir einhverju af tekjum ríkissjóðs. Það er augsýnilegt, að hæstv. ráðh. lítur á það sem sitt verk og stj. sinnar að reyta inn allt af almenningi eins og slæmur okrari, en slíkt er „léleg forretning“. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að það er ekki í þessum tilgangi, sem ríkissjóður er rekinn, heldur til að hjálpa fólkinu í landinu, og að stofna til mikilla óþarfa útgjalda er „léleg forretning“. Ef þessi hugsun býr á bak við stjórnarstefnu hæstv. ráðh., þá fer ég að skilja, hvers vegna stefnt er að því að reyta allt af almenningi, sem hægt er. Það er litið á það sem slæma forretningu að skila fólkinu aftur peningunum, þegar það á við atvinnuleysi að búa og er að brotna undan álögum, sem skapast undir hans eigin fjármálastjórn. Er slík hugsun gægist upp, fer óstjórn sú, sem hann er sekur um, að verða skiljanleg. En við slíkri stjórnarstefnu er erfitt að gefa holl ráð. Raunverulega er eina ráðið fyrir hann að segja af sér. Þó að hann sjái, að allt er að brotna saman undan hans eigin óstjórn, sér hann ekki ástæðu til að breyta stjórnarstefnu sinni. — Ég býst við, að þetta verði rætt ýtarlegar við næstu umr., og ég fæ tækifæri til að ræða þetta í n. Þá ætla ég að freista þess, hvort ekki sé hægt að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstj., og læt því útrætt um þetta núna.