23.10.1951
Neðri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð út af því, sem hv. 8. landsk. þm. tók fram. Ég bendi á það á ný, að áður en gengislækkunin kom til framkvæmda, var þessum málum svo komið, að þeir tekjustofnar, er þá voru og eru þeir sömu nú, þó örlítið breyttir fram og aftur, hrukku ekki fyrir gjöldum, og þá var ekkert til í útflutningsuppbætur. Það er rétt, að ráðgert hafi verið að greiða niður verðlag, og það var gert, þó að upphæðin hafi verið lægri núna. Útgjöld ríkissjóðs hafa farið hækkandi vegna hækkaðra launa. Megnið af söluskattinum varð að fara til almennrar greiðslu og niðurgreiðslu. Þess vegna gat ekki orðið af útflutningsuppbótum.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, vil ég henda á, að það voru mest vafningar og hann fór alveg fram hjá kjarna málsins í ræðu sinni. Hann gerði sér upp spurningu til að svara, sem hann sagði, að ég gæti ekki svarað. Ég spurði aldrei að því, hvernig ætti að afla tekna í ríkissjóð. Ef að þeirra ráði væri horfið, að fella niður söluskattinn, veit ég ekki, hvar þeir ætla að afla tekna í ríkissjóð. Eins og búast mátti við, reyndu þeir nokkuð að svara, þó að ég kalli þetta ekkert svar. Í fjvn. komu þeir með till., sem eingöngu miðuðu að því að lækka tölur í fjárlfrv., án þess að það komi til mála, að útkoman verði betri.

Hv. þm. talaði um, að stjórnarstefnan drægi úr atvinnulífinu og þess vegna yrðu tekjur ríkissjóðs minni, en ef stjórnað væri af meiri skynsemi, væri atvinnulífið blómlegra og skattarnir minni. Ég botna hvorki upp né niður í þessu, en bendi á, að vegna núverandi stjórnarstefnu í atvinnu- og framleiðslumálum hefur framleiðslan aukizt stórlega á síðasta missiri. Ef litið er á afkomu ríkisins, þá hrukku sömu tekjustofnar ekki til að standa undir gjöldum ríkisins, sem hrökkva nú til þess, þannig að nokkuð er greitt af lausaskuldum, án þess að nokkrir skattar séu hækkaðir. Ég benti á í framsöguræðu minni með fjárlfrv., að afkoma ríkisins hefði batnað vegna þess, að stefnan er rétt í framleiðslumálum og atvinnumálum. Ég gæti skilið þessa menn, ef hér væri um að ræða að hækka skatta og tolla, en það hefur orðið hlutverk Alþ. undanfarin ár, að undanteknu þinginu í fyrra og vonandi núna. Ég þekki enga þjóð, sem nú lækkar skatta, og þó ætla þessir hv. þm. að rifna út af því, að stj. haldi óbreyttum sköttum. Andstaða þessara manna væri eðlileg, ef stj. ætlaði að halda þessum sköttum óbreyttum til að safna í sjóði. En þegar það má ekki tæpara standa að koma saman fjárl., þá finnst mér óskiljanlegt þetta málavafstur. — Ég ætla svo ekki að hafa þetta lengra.