23.10.1951
Neðri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þótti hæstv. fjmrh. breyta um spurninguna, sem hann lagði fyrir mig. Ég man ekki betur en hann hafi spurt mig, ef ég vildi afnema söluskattinn, hvar ætti þá að afla tekna í ríkissjóð. Ég held, að spurningin hafi áreiðanlega verið þannig, og held, að ég hafi drepið á þetta. — Ég skil vel, að hæstv. fjmrh. botni hvorki upp né niður í minni ræðu samkv. hans sjónarmiði um atvinnulíf og fjármálalíf. Þó að gjaldþol almennings fari þverrandi, finnst honum sjálfsagt, að hann beri allan þungann eins og áður. Ég treysti mér ekki til að láta hann botna í þessu. — Hæstv. ráðh. gat þess, að framleiðslan hafi aukizt stórlega í tíð núv. ríkisstj. Mér þætti vænt um að fá skýrslu um aukningu t.d. í íbúðabyggingum. Hann sagði, að afkoma landsins væri stórum betri. Ég hef aldrei getað skilið þessa batnandi afkomu. Ég veit ekki, hvar þetta endar með svona rekstri. Það eru kannske skuldir ríkisins út á við, sem hann átti við. Erlendar skuldir eru nú 106 millj. kr. og innlendar 356 millj. kr., eða 100 millj. kr. hærri en í fyrra. Ég veit ekki, hvort þetta er afkoma til að stæra sig af. Ég held, að hún sé með endemum. — Hæstv. fjmrh. sagði, að hér væri ekki verið að fara fram á neinar nýjar álögur. Ég er ekki búinn að sjá fyrir endann á því á þessu þingi enn þá. Venjan hefur verið sú undanfarin ár að láta þær koma fram í þinglok — svona tvo síðustu daga þingsins — oftast rétt fyrir jólin.