10.12.1951
Neðri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta var til athugunar hjá fjhn. deildarinnar, og varð ekki samkomulag þar um afgreiðslu málsins. Tveir nm. skila sérstökum nál., þ.e. hv. 2. þm. Reykv., sem leggur til, að frv. verði fellt, og hinn er hv. þm. V-Ísf., sem lagt hefur fram sérstakt álit og lýsir sig þar andvigan frv. Meiri hlutinn hefur hins vegar lagt fram álit á þskj. 343 og lýsir þar yfir fylgi sínu við frv. með nokkrum breyt., sem hann flytur till. um á þskj. 347. Um þessar brtt. meiri hlutans er það að segja, að einni undanskilinni, að þar er ekki um efnisbreytingu að ræða. Það er að segja, framkvæmdin mundi verða hin sama og að undanförnu, þótt þær yrðu samþ., að frádreginni síðustu till. Fyrsta brtt. er umorðun á 1. gr., en engin efnisbreyting verður á greininni frá því, sem hún er. — Í a-lið 2. brtt. eru nánari ákvæði um heildsölu, sem undanþegin er söluskatti samkv. 22. gr., og er þessi brtt. eingöngu flutt til þess að gera þau ákvæði skýrari og ótvíræðari, að heildsala sé undanþegin söluskatti. „En til heildsölu telst ekki sala fyrirtækja á eigin framleiðslu. Einnig er undanþegin söluskatti samkvæmt 22. grein umboðsþóknun fyrir að útvega vörur frá útlöndum“, eins og segir í brtt. Hefur þetta hvort tveggja verið framkvæmt þannig, en rétt þótti að hafa skýrara orðalag á þessu ákvæði. — Þá er b-liður 2. brtt. Þar er ákveðið, að af sölu bóksala á bókum í umboðssölu skuli þó aðeins greiða skattinn af umboðsþóknun hans. Þetta er í samræmi við niðurstöðu máls, sem kom fyrir hæstarétt, og ákvað hann, að þannig skyldi þetta reiknast. — Þá er síðari líður þessarar brtt. Þar er lagt til, að ekki skuli greiða skatt af söluskatti eins og gert hefur verið undanfarið. Um þetta urðu málaferli, og var svo úrskurðað í hæstarétti, að söluskatt skuli greiða af brúttó-verði vörunnar, og hefur svo verið undanfarið. Hins vegar þykir sanngjarnt að gera á þá breytingu, að ekki þurfi að greiða söluskatt af söluskatti. Að öðru leyti leggur n. til, að frv. verði samþ., og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið.