10.12.1951
Neðri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég hef flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 383. Þær fela í sér, að fjórði hluti söluskattsins skuli renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, en tekjum jöfnunarsjóðs af söluskattinum skuli síðan skipt millí bæja og hreppa eftir fólksfjölda. — Við 1. umr. um þetta frv. benti ég á, að brýn þörf væri að gera einhverjar ráðstafanir í sambandi við fjármál sveitarfélaganna almennt, annaðhvort með því að létta af þeim gjöldum eða með því að láta þau hafa nýja tekjustofna. Það er alkunna, sem ekki þarf að útskýra mikið fyrir hv. þm., að bæði bæjar- og sveitarfélögin eiga við vaxandi fjárhagslega örðugleika að etja vegna margra orsaka. Á því er enginn vafi, að allur almenningur á nú erfiðara með að greiða sín opinberu gjöld en áður var. Enn fremur er þess að gæta, að ríkið tekur það mikið í álögum, bæði beint og óbeint, að það kemur nú alvarlega við hag sveitarsjóðanna. Og það er ekki aðeins, að þessar álögur séu miklu hærri að krónutölu, heldur eru líka innheimtuaðferðirnar harðskeyttari en þær voru, einkum við innheimtu söluskattsins, en hann er innheimtur að því viðlögðu að loka fyrirtækjunum. ef hann er ekki greiddur í tæka tíð. Hefur þessi innheimtuaðferð orðið til þess, að mun tregar hefur gengið fyrir bæjar- og sveitarfélögin að innheimta útsvörin. Auk þess hefur ríkisvaldið á undanförnum árum gengið mjög í þá átt að hækka ýmis lögboðin gjöld á sveitarfélögunum. Hins vegar hefur jafnhliða þessari þróun ekki verið séð fyrir nýjum tekjustofnum handa sveitarfélögunum. Þannig hafa þau samkv. lögum aðeins einn tekjustofn, útsvörin, og sem sagt, þó að álögurnar hafi þannig með lögum hækkað ár frá ári, hefur sveitarfélögunum ekki verið séð fyrir nýjum tekjustofnum. Auk þessa bætist það svo ofan á, að ríkissjóður hefur ekki staðið í skilum um ýmsar þær greiðslur, sem hann á að inna af hendi til sveitarfélaganna. Það er svo um allmargar framkvæmdir, sem löggjafarvaldið ætlast til að bæjarfélögin hafi með höndum, svo sem skólabyggingar, hafnargerðir og sjúkrahúsabyggingar, að þar hefur því verið með lögum lofað, að ríkissjóður greiddi hluta af byggingarkostnaði þessara framkvæmda. En nú er svo komið um flestar þessar framkvæmdir, að það stendur upp á ríkissjóðinn um meira eða minna af slíkum greiðslum. Nú vil ég taka fram, að hér gegnir nokkuð ólíku máli eftir því, hvers konar framkvæmdir þetta eru. Um sumar þeirra er svo fyrir mælt í lögum, að sveitarfélögin eigi að fá vissan hundraðshluta af byggingarkostnaðinum úr ríkissjóði, en það er sett að skilyrði, að það greiðist, þegar fé sé veitt til þess á fjárlögum. Hins vegar er í öðrum lögum svo ákveðið, að sveitarfélögin skuli fá vissan hluta byggingarkostnaðar framkvæmda sinna greiddan úr ríkissjóði, en þar ekki tekið fram, að greiðsla þessa hluta skuli innt af hendi, þegar fé sé veitt til þess á fjárl. Sérstaklega á þetta við um skólabyggingar. Og af því lít ég svo á, að jafnóðum og skólabyggingum miðar áfram hjá sveitarfélögunum, þá falli í gjalddaga það, sem ríkið á að greiða, vitanlega með því skilyrði, að fræðslumálastjórnin hafi samþykkt teikningar að þessum framkvæmdum og fyrirkomulag allt. Nú er það svo varðandi skólabyggingar eftir þeim skýrslum, sem hér liggja fyrir og fræðslumálastjórnin hefur sent öllum þm., að 1. nóv. s.l. skuldar ríkissjóður sveitarfélögunum vegna skólabygginga hvorki meira né minna en 13 millj. kr., sem að mínu áliti eru gjaldfallnar og ríkissjóður er skyldur til að greiða. Auk þessarar stóru upphæðar er það svo, að í allmörgum sveitarfélögum eru sjúkrahúsaframkvæmdir langt á veg komnar, en framlag ríkissjóðs til þeirra er ekki að fullu greitt. En ég vil taka skýrt fram, að hér ber nokkuð á milli, þar sem skýrt er tekið fram í l., að greiða skuli hluta af kostnaði við þessar framkvæmdir úr ríkissjóði, þegar fé sé veitt til þess á fjárl. Um framlag ríkissjóðs til skólabygginga er því eins ástatt og um jarðræktarstyrkinn, að skylda er til að greiða hann strax að fullu, eftir því sem bændum miðar áfram við ræktunarframkvæmdir. Af þessum ástæðum, sem ég hef nú greint, og sjálfsagt mörgum fleiri, sem hins vegar eru mismunandi í ýmsum byggðarlögum, t.d. aflaleysi ár eftir ár á sumum stöðum o.s.frv., varð það að ráði, að nú um miðjan okt. s.l. var efnt til ráðstefnu hér í Reykjavík með fulltrúum allra þrettán kaupstaða landsins til þess að bera saman bækurnar og ráða sínum ráðum um vandamál, sem að steðjuðu. Á þeim fundi lögðu þessir fulltrúar bæjarstjórnanna fram ýtarlegar upplýsingar um fjárhagsástæður og afkomumöguleika hver viðkomandi sínu byggðarlagi. Þessi mál voru rædd ýtarlega á fundinum og samþ. ýmsar till., bæði um, að nauðsynlegt væri, að létt væri ýmsum lögboðnum gjöldum af bæjar- og sveitarfélögunum, og í öðru lagi, að nauðsynlegt væri, að ríkissjóður greiddi jafnóðum sitt lögboðna framlag til ýmissa framkvæmda, — og síðast, en ekki sízt, að sveitarfélögum yrði séð fyrir nýjum tekjustofnum. Bæjarstjórafundurinn taldi nauðsynlegt, að fram færi heildarendurskoðun á þessum málum, þannig að tekin yrðu til endurskoðunar öll gildandi lagaákvæði um tekjur kaupstaðanna með það fyrir augum að setja heildarlöggjöf um tekjustofna þeirra og sveitarfélaganna almennt, þar sem tryggilega verði búið um fjárhagsgrundvöll þeirra og tryggt, að ekki verði beint eða óbeint gengið á þá tekjustofna, sem sveitarfélögum verða fengnir. Hins vegar taldi fundurinn, að þar sem slík löggjöf þyrfti bæði mikinn og nákvæman undirbúning, væri ekki unnt að bíða með allar aðgerðir, þar til slík löggjöf yrði til, heldur þyrfti að gera einhverjar ráðstafanir til úrbóta nú þegar. Sumir bæjarstjóranna upplýstu, að það mætti heita ógerningur að koma saman fjárhagsáætluninni hjá sumum kaupstaðanna að óbreyttum ástæðum, nema nýir tekjustofnar kæmu til. Af þeim ástæðum samþ. fundurinn, að til bráðabirgða yrði farið fram á það við Alþ., að meðan söluskatturinn er á lagður og innheimtur, skyldi helmingur hans ganga til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna, en þaðan vera dreift til sveitarfélaganna. Það er ekki ætlazt til, að þetta sé til kaupstaðanna eingöngu. heldur til allra bæjar- og sveitarfélaga og að þessu skyldi skipta eftir fólkstölu. Þessar till. bæjarstjórafundarins voru síðan bornar fram við ríkisstj., og flutti sú þriggja manna nefnd, sem bæjarstjóraráðstefnan kaus til þess, mál þetta við fors- og félmrh., sem málefni sveitarfélaganna heyra fyrst og fremst undir, rétt eftir miðjan októbermánuð og óskaði þess, að hann legði þær fyrir ríkisstj. Nú er komið hátt á annan mánuð siðan, og því miður hefur hæstv. ráðh. ekki séð sér fært að leggja fyrir Alþ. neinar till., hvorki til þess að létta útgjöldum af bæjar- og sveitarsjóðum né um að afla þeim nýrra eða aukinna tekjustofna. Þó að liðið sé nú hátt á annan mánuð síðan, hefur því miður svo farið, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. hefur ekki treyst sér til að verða við einni einustu till., sem bæjarstjórafundurinn bar fram, og verð ég að telja það mjög miður farið. Ég skal að vísu taka fram, að eitt frv. liggur fyrir þinginu, flutt að tilhlutun hæstv. fjmrh., sem snertir nokkuð hag bæjar- og sveitarfélaganna. Það er þó ekki borið fram í tilefni af óskum bæjarstjórafundarins, heldur er það frv., sem einnig var borið fram í fyrra, sem fer fram á, að nýtt fasteignamat skuli fram fara og semja skuli það að nýju til samræmis við núgildandi verðlag í landinu, og þegar þessu sé lokið, skuli fasteignaskatturinn, sem nú rennur í ríkissjóð, renna til sveitarfélaganna. Ég skal ekki ræða endurskoðun á fasteignamatinu í þessu sambandi. Það hefur verið gert hér allrækilega í sambandi við það frv., sem líka er hér á dagskrá. En ég vil taka það fram á þessu stigi, að sú hjálp, sem bæjar- og sveitarfélögunum yrði að samþykkt þess og framkvæmd, kæmi ekki að gagni fyrr en eftir tvö eða þrjú ár ettir þeirri reynslu, sem maður hefur af því, hvaða tíma það tekur að framkvæma hin nýju fasteignamöt. Fasteignaskatturinn á fyrst og fremst að ganga til þess að greiða þann kostnað, sem leiðir af framkvæmd fasteignamatsins, sem mundi vafalaust nema nú mörgum milljónum, ef miðað er við þann mikla kostnað, sem af því varð fyrir tíu árum. M.ö.o., jafnvel þótt menn vildu afgr. það frv. á þessu þingi, þá mundi það ekki koma að haldi fyrir sveitarfélögin fyrr en eftir langan tíma. Hér hefur því ekki orðið þess vart, að hæstv. ríkisstj. hafi gengið til móts við þessar óskir bæjarstjórafundarins til þess að mæta hinum brýnu þörfum sveitarfélaganna. Hins vegar hefur verið borið fram hér eitt frv., sem ég vil ekki láta hjá líða að minnast á í þessu sambandi, sem hæstv. ríkisstj. flytur, um breyt. á almannatryggingalögunum, sem felur í sér að skylda sveitarfélögin til þess að greiða stórhækkuð framlög til Tryggingastofnunarinnar á næstu árum. Það á að skylda þau til að greiða framlag sitt með kaupgjaldsvísitöluhækkun, sem taki gildi í marz n.k. Og eftir því sem tryggingastjórnin sjálf upplýsir, reiknar hún með 150 stigum. Þetta eitt mundi hækka lögboðin framlög sveitarfélaganna til Tryggingastofnunarinnar svo millj. kr. skiptir. Mér þykir harla undarlegt, að um leið og ríkisstj. hunzar gersamlega allar þessar till. bæjarstjóranna, virðist þetta vera svarið, sem hún ætlar að tjá bæjar- og sveitarfélögunum, að stórhækka með löggjöf framlög sveitarfélaganna til Tryggingastofnunarinnar.

Það verður vafalaust spurt um það hér, hvar ríkissjóður eigi að fá þær tekjur, sem hann hefur gert ráð fyrir að fá af söluskattinum, ef taka eigi hluta af honum handa sveitarfélögunum, eða beðið um að benda á þá gjaldaliði í fjárlagafrv., sem eigi þá að lækka eða skera niður. — Ég vil nú fyrst spyrja: Þegar Alþ. og ríkisstj. hefur á undanförnum árum verið að leggja nýjar álögur á bæjar- og sveitarfélögin, hvenær hefur þá verið bent á nýja tekjustofna handa sveitarfélögunum? Þegar m.a. með tryggingalöggjöfinni eru lagðar ekki aðeins milljónir, heldur milljónatugir í útgjöldum á sveitarfélögin, þá er ekki bent á neina nýja tekjustofna handa þeim. Þegar sveitarfélögin voru lögskylduð til að greiða visst framlag á íbúa í byggingarsjóð, var ekki bent á nýja tekjustofna handa þeim. Þegar hækkað var tillagið til bjargráðasjóðs, var ekki bent á nýja tekjustofna handa þeim. Þegar skylda var lögð á þau viðkomandi skólabyggingum, var ekki bent á nýja tekjustofna handa þeim. Þegar ríkisvaldið fyrirskipaði kaupstöðum landsins, t.d. Reykjavík, að hafa tvo lögregluþjóna á hvert þúsund íbúa, þá var ekki bent á neina nýja tekjustofna handa þeim til þess að standa undir þeim milljónum í útgjöldum, sem t.d. Reykjavík verður að greiða vegna aukins kostnaðar við löggæzluna og annað af þessum ástæðum. Þó að ríkið hafi sem sagt ár eftir ár lagt ný og margs konar lögboðin gjöld á sveitarfélögin, hefur ríkisvaldið ekki haft fyrir því að benda þeim á eða útvega þeim neina nýja eða aukna tekjustofna. En þegar farið er fram á, að bæjarsjóðir fái eitthvert fé til þess að standa undir öllum þessum útgjöldum, m.a. sem af því leiðir að greiða gjald til trygginganna með vísitöluhækkun, þá er þess krafizt, að bent sé á nýja tekjustofna fyrir ríkissjóð eða leiðir til lækkunar útgjalda ríkissjóðs. Ég skal taka fram á þessu stigi, að vafalaust mundi vera hægt að taka ýmsa liði út úr gjaldabálki fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir nú, eða greiða þá af tekjuafgangi ársins 1951 til þess m.a. að mæta þessu, sem hér er farið fram á. Í öðru lagi tel ég, að sumir tekjuliðir fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, séu það varlega áætlaðir, að mjög vel megi hækka þá nokkuð.

Ég skal ekki fara öllu fleiri orðum um þetta að sinni. En ég vil þó aðeins leyfa mér að benda á það, að þótt hæstv. ríkisstj. telji það fyrst og fremst skyldu sína að sjá um, að ríkissjóður sé rekinn hallalaust, — og er það virðingarvert og sjálfsagt að styðja hana af öllu megni í því, að búskapur ríkisins sé greiðsluhallalaus, — þá hefur ríkisvaldið líka skyldur gagnvart sveitarfélögunum og þeirra fjárhag, og ekki sízt hefur það skyldur til að sjá þeim fyrir nýjum tekjustofnum, þegar hvort tveggja fer saman, að ríkisvaldið hefur lagt þungar byrðar og margar á sveitarsjóðina og auk þess stendur það ekki fyllilega í skilum með ýmsar greiðslur til þeirra. En ef hæstv. ríkisstj. og Alþ. vill ekki sinna á neinn hátt hinum réttmætu óskum bæjar- og sveitarfélaganna, þá er rétt, að þeir sömu aðilar geri sér grein fyrir, hvað gerist, ef þessu er að engu sinnt. Meðal stærstu útgjaldaliða sveitarfélaganna eru hin lögboðnu framlög til trygginganna. En samkv. l. stendur ríkissjóður í ábyrgð fyrir þessum framlögum, ef sveitarsjóðir inna ekki þessar greiðslur af hendi. Ef sveitarsjóðir geta ekki aflað sér þeirra tekna, sem til þess þarf að standa í skilum með þetta, eða létt af sér útgjöldum, sem nauðsynlegt er til þess, getur ekki orðið önnur afleiðing þess en sú, að meira eða minna af sveitarfélögum getur ekki staðið í skilum með tryggingagjöldin, með þeim afleiðingum, að þau koma á ábyrgðarmanninn, þ.e.a.s. Ríkissjóðinn. Og um leið og bæjar- og sveitarsjóðir lenda í verulegri fjárþröng, — og slíku má búast við með því atvinnuástandi, sem nú er að skapast, — þá hljóta kröfurnar til ríkissjóðs að vera miklu háværari en áður um, að ríkissjóður geri eitthvað til þess að efla og auka atvinnuna í kaupstöðunum. En það er nú þegar svo komið, að ýmis bæjarfélög, — og ekki aðeins bæjarfélög, heldur líka jafnvel fleiri önnur sveitarfélög, — hafa ekki getað staðið í skilum með lán, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir, og á ég þar bæði við hafnarmál, rafveitumál og jafnvel fleira. Ég ætla, að það séu nú. þegar orðnar 7–8 millj. kr., sem ríkissjóður heinlínis hefur orðið að greiða vegna vanskila sveitarfélaga á vöxtum og afborgunum, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir. Og ég er hræddur um, að þetta fari ört vaxandi. Ég býst við, að það stærsta fram undan í því efni séu rafveitumálin, en hafnargerðir og vegagerðir og verksmiðjumál koma þar líka nokkuð við sögu.

Ég vil nú taka skýrt fram, að það, sem ég hér hef talað um fjárþörf sveitarfélaga, á ekki fyrst og fremst við um það bæjarfélag, sem ég er fulltrúi fyrir, heldur tala ég fyrst og fremst sem fulltrúi fyrir þá bæjarmálaráðstefnu, sem haldin var um miðjan október í haust s.l. og fól mér að koma þessum till. á framfæri við hæstv. ríkisstj. og Alþ. En það eru ekki eingöngu kaupstaðirnir, sem hér eiga hlut að máli, þó að þeir einir hafi átt fulltrúa á þessari ráðstefnu, heldur eru mörg stærri kauptún, sem eiga hér hlut að máli og eiga ekki síður í miklum erfiðleikum en kaupstaðirnir.

Ég vænti þess, að þessar till. mínar á þskj. 383 fái hér góðar viðtökur í hv. d. Hér er farið miklu skemmra en bæjarstjórafundurinn óskaði, en þar var farið fram á, að helmingur söluskattsins rynni til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga, og í þá átt gengur það frv., sem flutt var í hv. Ed. af hv. þm. úr öllum fjórum þingfl. Hér er aðeins farið fram á, að einn fjórði hluti söluskattsins renni til þessa, í þeirri von, að um það geti náðst samkomulag.