10.12.1951
Neðri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af þeim brtt., sem fram hafa komið við frv. Fyrst er þá sú brtt. frá hv. 2. þn. Reykv. að fella söluskattinn alveg niður. Í sambandi við hana vil ég upplýsa, að nú er komið í ljós eftir athugun, sem alveg nú síðustu dagana var gerð um afkomu ríkissjóðs á þessu ári, að ef söluskatturinn hefði verið felldur niður í fyrra, hefði orðið margra milljónatuga greiðsluhalli í ár þrátt fyrir alveg óvenjulega mikinn innflutning. Á þessu sést, hve mjög á sandi allar þær ræður hv. 2. þm. Reykv. eru byggðar og annarra, sem talað hafa líkt og hann um þessi mál. En varðandi næsta ár í þessu efni, sem nú er aðalatriðið í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, vil ég leyfa mér að benda á nokkur atriði og þá sérstaklega út af því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér, þegar hann mælti fyrir sinni till., sem er um það, að einn fjórði hluti söluskattsins renni til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga á næsta ári. — Fjárlagafrv., sem við nú erum með til umr., er orðið með 370 millj. kr. útgjöldum. Og það er nokkuð augljóst, að það þarf að gera á því enn nokkrar leiðréttingar til hækkunar þessu. Það er t.d. ekki búið að taka á fjárlagafrv. hækkun vegna þess, að vísitalan er hærri en gert var ráð fyrir, er það var samið, sem nemur nokkurra millj. kr. útgjöldum. Auk þess eru eftir leiðréttingar, sem nema nokkurri fjárhæð. Og svo verða alltaf einhverjar hækkanir við 3. umr.. hversu varlega sem þingmeirihlutinn fer. Það er því vist, að gjaldaáætlun fjárl. fyrir næsta ár verður ekki undir 380 millj. kr., og má alltaf gera ráð fyrir einhverjum umframgreiðslum, hvernig sem allt veltist. Og viðkomandi tekjumöguleikunum er það að segja, að nú er komið tekjuuppgjör fyrir nóvembermán. s.l. til 1. des., og mér sýnist, að árstekjurnar muni ætla að verða um 405 millj. kr., eftir því sem næst verður komizt, þegar áætlað er um einn mánuð. Á því sjáum við myndina, hvernig hún er. Það kemur sem sé í ljós, að tekjurnar í nóv. og des. verða ekki tiltölulega eins miklu hærri en í öðrum mánuðum ársins eins og undanfarin ár hefur verið, og er það af því, að innflutningur hefur verið óvenjulega mikill á árinu, sem hlýtur að segja til sín m.a. nú síðustu mánuðina. M.ö.o., eftir því sem næst verður komizt, eru þetta rúmar 400 millj. kr. Nú er ómögulegt að gera ráð fyrir sömu tekjum t.d. af verðtolli næsta ár. Það er ekki útlit fyrir, að hægt sé að gera sér vonir um, að innflutningur verði eins mikill næsta ár, eftir að aflað hefur verið birgða fyrir milljónatugi á þessu ári. Á þessu ári sjáum við það, sem alltaf hefur vofað yfir og ég tók fram í framsöguræðu minni um málið, að það er fullhart á því, að auðið verði að afgr. tekjuhallalaus fjárlög með því, að ríkissjóður haldi öllum söluskattinum eins og nú er. Sjáum við það af þeim tölum, sem ég hef nefnt. M.ö.o., það, sem gjöldin eru að verða á fjárlagafrv., nálgast það, sem tekjurnar verða í ár hjá ríkinu. Og þó höfum við verið sammála um, að næsta ár verði ekki eins gott tekjuár og yfirstandandi ár. Þetta sýnir alveg glöggt, að það er ekki til þess að hugsa, að ríkissjóður megi missa af þeim tekjum, sem hann nú hefur. Og þess vegna er ekki hægt — ekki nokkur möguleiki til þess — aðleysa fjárhagsvandræði eins né annars með því að taka hluta af þeim tekjustofnum, sem ríkissjóður hefur nú, nema því aðeins að menn vilji hætta við að afgr. greiðsluhallalaus fjárlög. En það er grundvallaratriði í stefnu núverandi ríkisstj.afgr. fjárl. greiðsluhallalaus, og frá því getur hún ekki með nokkru móti víkið. — Þetta vildi ég leyfa mér að upplýsa og taka fram í sambandi við þessar umr. — Ég ætla ekki að ræða almennt um fjárhagserfiðleika sveitarfélaganna. Ég veit, að ýmsir erfiðleikar hafa verið á að halda þar í horfinu. En þau vandkvæði geta ekki orðið leyst með því að taka af tekjustofnum ríkisins, eins og nú horfir. Það er óhugsandi.

Hv. 7. þm. Reykv. minntist í þessu sambandi á ýmsa löggjöf, sem þingið hefði sett. Og ég skal ekki fara út í að ræða það í einstökum atriðum. En ég vil bara benda á út af einu atriði, sem hann tók fram, skólalöggjöfinni, að í fræðslul. nýju var náttúrlega létt byrðum stórkostlega af sveitarfélögunum og færðar yfir á ríkissjóð, bæði hvað viðkemur rekstri skólanna, miklu meira en áður, en eins var þá tekið upp að greiða úr ríkissjóði byggingarkostnað skólanna, sem ekki hafði áður verið gert nema í sumum tilfellum.

Varðandi það frv., sem fyrir þinginu liggur um greiðsluna til trygginganna, þá er þess að geta, að þar er ekki á nokkurn hátt gengið á hlut bæjanna í því frv. Þar er gert ráð fyrir, að haldið verði áfram því hlutfalli, sem frá öndverðu hefur verið þar sett í tryggingal. um framlög til trygginganna, og ekki raskað neinu í því, þannig að þar sé velt neinu yfir á bæina, sem áður hefur hvílt á öðrum. Það er bara gert ráð fyrir í því frv. að greiða vísitöluhækkun á tryggingagjöldin, og skiptíst það í jöfnum hlutföllum eins og áður hefur verið.

Ég verð því að mælast mjög eindregið til þess, að hv. þd. aðhyllist ekki þessar till., sem fram eru komnar á þskj. 383, því að samþykkt þeirra getur ekki samrýmzt afgreiðslu greiðsluhallalausra fjárl. Það er alveg augljóst.