10.12.1951
Neðri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Vegna þess að frsm. hv. 2. minni hl. fjhn. er forfallaður, hv. þm. V-Ísf., ætla ég að segja fáein orð í hans stað. — Hv. þm. V-Ísf. hefur lagt til í nál. sínu á þskj. 354, að söluskatturinn verði ekki framlengdur, en að öðrum kosti sé hann fús til viðræðna og samninga um undanþágu frá söluskattinum fyrir vörur og þjónustu, sem mest áhrif hafa á framfærslu- og framleiðslukostnað. — Alþfl. hefur frá öndverðu tekið fram, að hann væri andvígur framlengingu söluskattsins. Hann taldi við meðferð fjárlagafrv. í fjvn., að það hefði komið í ljós, að á ríkisbúskapnum mundi verða verulegur tekjuafgangur, eða upp undir 90 millj. kr., þannig að óhætt væri að fella söluskattinn niður, þar sem gera mætti ráð fyrir ekki minni tekjum á næsta ári en á yfirstandandi ári og útgjöldin mundu ekki hækka svo mjög, að þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um þau, mundu ekki standast. Nú var hæstv. fjmrh. að segja það áðan, að samkvæmt nýrri athugun á afkomu ríkissjóðs væri þetta ekki rétt. Þau plögg, sem legið hafa fyrir hjá hæstv. fjmrh., virtust gefa í skyn, að tekjuafgangur yrði 80–90 milljónir. Sé þetta ekki rétt, væri æskilegt, að fyrir lægju aðrar skýrar og ótvíræðar upplýsingar um það, hver tekjuafgangurinn yrði í ár. Um það er ekki ágreiningur, að æskilegt er að láta ríkisbúskapinn á þessu ári og næsta verða hallalausan, og að svo miklu leyti sem nauðsynlegt kann að vera að halda söluskattinum og ekki hægt að koma við beinum sparnaði við samningu fjárl., þá er ekki um annað að gera en að framlengja hann að einhverju leyti. Þess vegna er það tekið fram í nál. 2. minni hl., að komi það í ljós, að óhjákvæmilegt sé vegna greiðsluhallaafkomu ríkissjóðs að halda söluskattinum að einhverju leyti, þá verði a.m.k. að létta honum af brýnustu nauðsynjavörum almennings og þeim vörum, sem mest áhrif hafa á framleiðslukostnaðinn. En á því sýnir hæstv. ríkisstj. engan lit og vill fá í ríkissjóðinn sömu tekjur á næsta ári og innheimfar eru á þessu ári.

Ég hef áður sýnt fram á, að söluskatturinn hefur mikil áhrif á dýrtíðina, svarar til a.m.k. 6 stiga í framfærsluvísitölunni, svo að þar mundi ríkissjóður spara veruleg útgjöld, ef innheimta söluskattsins hætti. Annars er það að segja í sambandi við söluskattinn, að spurningin er ekki um það eitt, hvort æskilegt sé eða óæskilegt að innheimta hann af öllum vörum eða aðeins nokkrum vörum. Um söluskattinn er það að segja, að allt fyrirkomulag hans og innheimta er mjög miklum annmörkum háð. Ég hygg, að söluskatturinn sé í engu landi innheimtur með sama hætti og á Íslandi. Söluskattur er algengur í löndum Vestur-Evrópu, en hann mun hvergi vera innheimtur með sama hætti og hann er innheimtur hér. Þegar hann var á lagður í ýmsum löndum í stríðinu og eftir styrjöldina, þá var hann viða innheimtur eins og hér hefur verið gert og gert er enn, þ.e.a.s. reynt að leggja hann á alla veltu, hverju nafni sem nefnist, en alls staðar hefur verið frá þessu horfið. Síðast var nýlega gerð viðtæk breyt. á söluskattinum og innheimtu hans í Noregi, því að Norðmenn ráku sig á það sama sem mér finnst að íslenzkir skattheimtumenn ættu að vera búnir að uppgötva, að þetta fyrirkomulag, að gera tilraun til þess að innheimta skattinn af bókstaflega allri veltu, er ranglátt, óeðlilegt og óframkvæmanlegt og skapar svo gífurlegan rugling og svo mikið ósamræmi, að af hljótast endalausar deilur, sem eru mjög óheppilegar fyrir alla framkvæmd skattheimtunnar. Sem einstaks dæmis skal ég geta þess, að fyrir fáum dögum var mér sagt frá deilumáli milli skattstofunnar og fyrirtækis hér í bænum um tiltölulega mjög einfaldan hlut. Fyrirtæki hér í bænum hafði fengið pöntun utan af landi á bifreiðavarahlutum, mest af þeim átti það sjálft, en sumt ekki, og keypti það því í annarri verzlun og bætti því síðan á reikninginn án álagningar, þ.e.a.s. með innkaupsverði sínu hjá hinni verzluninni, og af því var auðvitað greiddur söluskattur í verzluninni, sem af var keypt. En söluskatts var líka krafizt af þessari verzlun af upphæð þeirrar vöru, sem hún hafði keypt frá hinni verzluninni og eingöngu haft milligöngu um að útvega. Ég skal nefna annað dæmi, sem ég frétti um samtímis. Fyrirtæki hér í bænum sendi vörur út á land og tók að sér að sjá um útskipun á vörunum, greiða útskipunargjald og flutningsgjald. Allt þetta var talið söluskattsskylt hjá viðkomandi fyrirtæki, þó að í rauninni væri ekki um vörusölu að ræða, heldur útvegun og útskipun. Þannig gæti ég haldið áfram að telja langa lengi dæmi um það, að framkvæmd söluskattsins eftir núgildandi reglum, sem um hann gilda, er mjög á reiki og í mörgum tilfellum óeðlileg, enda ríkir með það megn óánægja, svoleiðis að af þessum meginreglum leiðir, að 2–4 sinnum er lagt á sömu vöruna en það verður að telja óverjandi skattheimtuaðferð. Aðferðin, sem Norðmenn hafa tekið upp, er að innheimta söluskattinn, þegar varan fer frá síðasta sölustigi yfir í hendur neytenda, og það mun vera skoðun flestra manna annars staðar, sem reynslu hafa á þessu sviði, að eðlilegast væri að innheimta slíkan skatt annaðhvort við uppruna vörunnar hjá fyrsta framleiðanda eða hjá síðasta aðila, sem afhendir hana til neytenda. En hér reyna skattyfirvöldin að troða sér inn með skattinn á öll stig vöruafhendingar, með þeim afleiðingum, að skatturinn er innheimtur margfaldur. Það er algengt annars staðar, að söluskattur er ekki lagður á allar vörur, heldur eingöngu á óhófsvörur og þær vörur, sem ekki teljast brýnustu lífsnauðsynjar, t.d. í Englandi og Bandaríkjunum. Það er eitt atriði enn, sem ekki hefur verið mikið að vikið og ég tel, að skattyfirvöldin hafi vanrækt mjög verulega. Það er að gera ráðstafanir til þess að hafa náið eftirlit með skattheimtunni, þ.e.a.s. að gera tryggar ráðstafanir til þess, að allur skatturinn komi til skila í ríkissjóð.

Í sambandi við þetta er því í rauninni mjög margt að athuga, þótt ekki skuli ég orðlengja um það frekar, en ég tei, að hæstv. ríkisstj. gæti á þessu sviði gert fjölda margt, sem hún því miður lætur ógert. Meginniðurstaðan er því sú, að samkvæmt upplýsingum, sem fyrir hafa legið tölulega fram til þessa, þá hefur ekki virzt ástæða til að innheimta söluskattinn allan, og þá er sjálfsagt að létta honum af brýnustu nauðsynjum. Það er enn fremur sjálfsagt að breyta verulega innheimtuaðferð skattsins til að koma í veg fyrir, að hann leggist oftar en einu sinni á sömu vöru, og það þarf að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að auka eftirlitið með skattheimtunni. Meðan hæstv. ríkisstj. sýnir ekki meiri lít á að framkvæma þessar aðgerðir, sem ég hef lýst, þá munum við Alþfl.-menn í þessari d. greiða atkv. gegn framlengingu söluskattsins.