12.10.1951
Efri deild: 12. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

40. mál, lántaka vegna áburðarverksmiðjunnar

Fjmrh, (Eysteinn Jónsson):

Eins og menn vita, þá var leitað eftir láni hjá Alþjóðabankanum til þess að greiða kostnað við byggingu áburðarverksmiðju. Bankinn hefur samþ. að láta í té að láni um 850 þús. dollara, sem þó er ekki endanlega alveg afráðið. Nú er í lögunum farið fram á lántöku vegna verksmiðjunnar, en ekki miðað við neina fasta upphæð, bara heimilað að taka að láni fjárupphæð. Hins vegar þarf að leggja fyrir ákveðna lánsheimild, þar sem lánið er tekið erlendis. Þess vegna er þetta frv. flutt og farið fram á að veita tiltekna heimild, sem greinir í frv. Ég vil leyfa mér að vona, að þingdeildin samþykki þetta frv., og er núna verið að vinna að hinni formlegu hlið þessa máls.

Það væri æskilegt að afgreiða þetta mál án þess að senda það í n., ef d. sæi sér fært. Ef þess er óskað, að það fari í n., verður svo að vera. Færi svo, að hv. þm. óskuðu þess, að málið færi í n., óska ég þess, að n. gæti skilað svo fljótt áliti, að hægt væri að afgr. það á mánudag, og býst ég við, að það komi ekki að sök. Ég hef ekkert á móti því, að málið fari í n., en óska eftir því, að þessi háttur verði hafður á afgreiðslu málsins.