18.12.1951
Neðri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég boðaði við 2. umr. þessa máls, að svo framarlega sem d. færi ekki eftir mínum till. um að fella söluskattinn, þá mundi ég reyna að fá fram nokkra lagfæringu á þessu. Ég ber fram brtt. á þskj. 494, það er að vísu ekki búið að útbýta þeim enn þá, en ég vona, að það verði gert fljótlega. — 1. brtt. er við 1. gr.: „Í stað orðanna „2. og 3. gr.“ komi: 2.-5. gr.“ — 2. brtt. er um nýja gr. á eftir 3. gr.: „Við A-lið 23. gr. l. nr. 100/1948 bætist: svo og allar íslenzkar iðnaðarvörur.“ M.ö.o., eins og landbúnaðarvörur eru undanþegnar söluskatti og allar brýnustu vörur sjávarútvegsins, þá skulu íslenzkar iðnaðarvörur líka undanþegnar söluskatti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. Þinginu hafa borizt margar óskir um þetta frá almennum samtökum verkafólks og iðnrekenda. Þetta er ekki óeðlileg krafa, því að söluskatturinn hefur ekki lent eins þungt á neinni atvinnugrein og iðnaðinum. Söluskatturinn er innheimtur tvisvar til þrisvar af þessum vörum. Þó að þetta verði samþ. eins og ég legg til, lendir erlent hráefni til iðnaðar í söluskattinum. Það eru aðeins vörurnar, eins og þær eru seldar frá verksmiðjunni, sem eru undanþegnar honum. Ég vil vekja eftirtekt á því, og ég býst við, að það færi heim sanninn um það, hvernig íslenzkur iðnaður er staddur nú, að það mun láta nærri, að við iðnaðinn hér í Reykjavík starfi ekki eftir nýár nema 1/3 hluti þess iðnverkafólks, sem fyrir einu ári starfaði við hann, og virðist iðnaðurinn þokast að hruni. Ég viðurkenni, að það er fleira en söluskatturinn, sem kemur hér til greina. Það er lánsfjárkreppan og innanríkispólitíkin, sú stefna stj. að láta stóriðnaðinn njóta sérréttinda og drepa með því smáiðnað landsins. Það er því raunverulega það minnsta, sem hægt er að gera fyrir þennan iðnað, að koma því til leiðar, að söluskattur sé ekki innheimtur 2–3 sinnum oftar af honum en af öðrum afurðum. Hann mundi lenda á hráefninu, en iðnaðurinn væri undanþeginn söluskatti á framleiðsluvörum sínum. Nú liggja þær upplýsingar hér fyrir, að í milli 10 og 20 atvinnufyrirtækjum, þar sem unnu um 470 manns árið 1950, verði ekki eftir nema um 70 manns eftir nýár. Ég veit, að nú er verið að segja upp um 60 iðnverkamönnum, sem ekki eru taldir með í þessum upplýsingum. Þessar upplýsingar hafa verið lagðar fyrir formenn þingfl. af fulltrúum iðnaðarmanna, og býst ég við, að þær verði lagðar fyrir iðnn. beggja deilda. Ástandið verður því verra eftir nýár. Nú er svo komið, að sum fyrirtækin reyna að tóra svolítið enn þá til að vita, hvort jólasalan hjálpar þeim ekki eitthvað. Samþykkt þessarar till. er bæði sjálfsögð og eðilleg, þegar tillit er tekið til þess neyðarástands, sem ríkir í þessum atvinnuvegi.

3. brtt. á þskj. 494 er um það, að ný gr. komi í frv., umorðun á 24. gr. l. nr. 100 frá 1948, sem breytt var með 3. gr. l. nr. 112 frá 1950. Þetta eru ákvæði um hina harkalegu innheimtu söluskattsins, sem nú hefur verið beitt í eitt ár. Ég man eftir því, að ég talaði á móti þessari gr. og greiddi atkv. á móti henni. Ég áleit, að það mundi sýna sig, að þessi aðferð yrði of harðvítug gagnvart almenningi. Það, sem ég legg til, er, að 24. gr. verði orðuð nákvæmlega eins og hún er í l. frá 1948, nema ártölum verði breytt. M.ö.o., að í staðinn fyrir þessa harkalegu innheimtuaðferð, sem samþ. var á síðasta þingi, komi sú aðferð, sem samþ. var með l. frá 1948. Það er vítaverð aðferð að innheimta söluskattinn með því að loka þeim atvinnufyrirtækjum, sem ekki geta greitt hann. Það hefur komið fyrir, að þessari aðferð hefur verið beitt svo harkalega, að atvinnufyrirtækin hafa verið innsigluð á meðan fólkið var við vinnu. Það hefur komið fyrir, þótt eigendurnir ættu fé til að greiða skattinn með. Nú er svo komið, að menn leita í vaxandi mæli til þeirra okurstofnana, sem þrífast í skjóli lánsfjárbannsins og þeirrar innheimtuaðferðar, sem ríkisstj. beitir við innheimtu söluskattsins. Það er gengið svo hart í að innheimta söluskattinn, að aðrar innheimtur, bæði skattar og útsvör, verða að þoka til hliðar. Með breyt. á l., sem gerð var 1950, er ríkisstj. að gefa fordæmi um alla aðra skattheimtu í landinn. Það sýndi sig á síðasta ári, að ríkisstj. innheimti mestallan söluskattinn án þess að hafa þörf fyrir hann. Með þessu hefur hún tekið úr umferð hjá atvinnufyrirtækjum brýnasta nauðsynjafé og látið liggja svo að segja ónotað í ríkissjóði og safnað sjóðum, á meðan fjölda atvinnufyrirtækja vantar þetta fé. Ég álít, að þessi aðferð geli ekki gengið. Ég veit dæmi um menn, sem áttu dýrmætar vélar á verkstæði hér í Reykjavík, sem þeir skulduðu lítils háttar í og þurftu að nota við sína iðn og sérstaklega við framleiðslu til jólasölunnar. Þær voru innsiglaðar, og var þá ekki hægt að nota þær, svo að þær voru teknar og seldar við afsláttarverði. Ef vélarnar hafa kostað 50–60 þús. kr. og þeir verið búnir að borga 50 þús. kr., gátu þeir ekki fengið lán, og þá var gengið svo harkalega að þeim, að allt var innsiglað og boðið upp. Með þessu er verið að ræna menn eignum sínum, og þannig er farið að nú eins og þessir menn þurftu að horfast í augu við.

Ég býst ekki við, að það hafi mikil áhrif á hv. þm., þó að ég lýsi ástandinu eins og það er nú hér í Reykjavík. Menn fá ekki að vera í friði með atvinnu sína, svo að þeir fá ekki peninga til að framfleyta fjölskyldu sinni, og fer þá svo, að fullorðnir og ungbörn verða að svelta. Það hefur ekki mikla þýðingu að rekja þetta, en hitt geta hv. þm. skilið, að það er nauðsynlegt að hafa bjargálna millistétt. Nú er verið að féfletta þessa millistétt á þann hátt, að eignir hennar eru teknar upp í söluskatt og útsvar. Söluskatturinn rekur mest á eftir, vegna þess að innheimta hans er harðvítugust af öllu.

Ég álít, að sú ríkisstj., sem stærir sig af því að vera betri og mildari en ríkisstj. 1948, sem kom söluskattinum á, ætti að geta sætt sig við sömu innheimtuaðferð. Ég held, að ríkisstj. ætti að geta gengið inn á, að innheimta söluskattsins sé eins og öll önnur skattheimta í þjóðfélaginu. Þess vegna legg ég til, að innheimtuaðferðin verði aftur færð í sama horf og hún áður var.

Að öðru leyti ætla ég ekki að orðlengja um þetta frv. Ég var við 1. umr. búinn að láta í ljós álit mitt á því og hef engu við það að bæta, en þessar brtt. eru aðeins til að sníða mestu vankantana af því.