18.12.1951
Neðri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil ákveðið mótmæla því, að brtt. um að fella niður söluskatt af iðnaðarvörum nái fram að ganga. Þetta mundi skerða tekjur ríkissjóðs að verulegu leyti. Frá öndverðu hefur söluskatturinn verið lagður á iðnaðinn, og er því ekki fyrirhugað að leggja hann öðruvísi á á næsta ári.

Varðandi það, sem hv. þm. sagði, að fyrirtækin ættu örðugt uppdráttar vegna innheimtu söluskattsins, vil ég taka það fram, að í þessu tilfelli er söluskatturinn aukaatriði. Það, sem hér um ræðir, eru skóvínnustofur, og af þeim vörum, sem keyptar eru inn til þessarar framleiðslu, eru 70–80% fyrir utan söluskattinn. Tollarnir eru svo stórkostlegir, að söluskatturinn er alveg aukaatriði, og eru því önnur öfl að verki hér en hann.

Varðandi till. um breyt. á innheimtu söluskattsins er það að segja, að eftir því sem hv. 2. þm. Reykv. talaði, virðist honum eðlilegt, að fyrirtækin innheimti söluskattinn frá almenningi og taki hann til sín sem tekjur ríkissjóðs og hafi hann í sinni veltu, en skili honum ekki til ríkissjóðs. Ef þessari innheimtuaðferð yrði breytt, þá mundu skilamenn skila skattinum strax, en aðrir ekki og mundu þá lenda í vanskilum, sem þeir gætu ekki losnað úr, vegna þess að þeir hafa ekki skilað skattinum. Ég held, að margir hafi hreint ekkert haft á móti því, að þessi aðferð var tekin upp, og að þeir telji það ekki í þágu þessara atvinnustétta, að sá háttur verði upp tekinn, sem hv. 2. þm. Reykv. stingur upp á, að ginna menn út í þá freistingu að halda peningunum hjá sér og eiga á hættu að geta ekki skilað þeim síðar. En fyrir þeirri freistingu mundu margir falla.

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson): Viðvíkjandi aths. hæstv. fjmrh. um söluskatt á íslenzkar iðnaðarvörur vil ég minna á, að það liggja fyrir þinginu eindregin tilmæli, ekki aðeins frá samtökum iðnrekenda og iðnverkafólki, heldur fjölmörgum öðrum samtökum, um að létta þessum söluskatti af. Ég hafði í mínu nál. fyrir 2. umr. prentað nokkur sýnishorn af slíkum áskorunum, þar sem er sérstaklega tekið fram um iðnaðarvörur, þannig að engum efa er bundið, að þó að aflétting söluskattsins gæti ekki bjargað sumum af þeim fyrirtækjum, sem er verið að loka eða búið er að loka, mundi aflétting þessa skatts hjálpa iðnaðinum nokkuð. Það er alveg rétt, að það er ekki fyrst og fremst söluskatturinn, sem er að sliga nú, það er líka um að ræða afleiðingar af stefnu, sem tekin var. En að létta söluskattinum af, þegar maður veit, að ekki fæst breyt. viðvíkjandi sjálfu lánsfénu né heldur stefnu í innflutningsmálum, mundi vera ofur lítill vottur þess, að menn vildu eitthvað hjálpa innlenda iðnaðinum.

Viðvíkjandi innheimtu söluskattsins og því, sem hæstv. ráðh. sagði um það mál, vil ég taka það fram, að það er að vísu svo, að allir þeir tollar, sem innheimtir eru, greiðast af þeim mönnum, sem taka að sér að innheimta þá, um leið og þeir fá vöruna inn. Og það er gífurlega mikið, sem er lagt á þá atvinnurekendur og þá, sem verzlun reka, með því að skylda þá til að greiða allan þann hluta út, sem ríkið tekur til sín, — að snara út öllum tollum, sem ríkið leggur á, í annarri eins lánsfjárkreppu og nú. Og sannleikurinn er, að þegar ríkið felur þessum atvinnurekendum ýmsum og viðskiptastofnunum ýmsum, verzlunarfélögum og verzlunum, þessa innheimtu á tollum, væri ekkert óeðlilegt, þó að ríkið hugsaði betur um lánsfjárþörf þessara aðila en nú er gert. Ég álít þess vegna ekki ósanngjarnt, þó að þessar stofnanir, sem innheimta fyrir ríkið svo mikið fé, hafi eitthvað af því í veltu um tíma, þegar þeir verða að snara megninu af því út, áður en það kemur raunverulega í veltuna. Það mun vera svo, að ýmsir erfiðleikar eru nú orðnir á að greiða þetta, og er svo um fjöldann allan af útsvörum og sköttum. Ég veit ekki betur en ríki og bæjarfélög feli ýmsum fyrirtækjum að innheimta tekjuskatt og útsvar, t.d. atvinnufyrirtækjum af verkamönnum, og þeir hafa það ákveðinn tíma í sinni veltu, þannig að söluskatturinn er ekki undantekning. En ríkisstj., sem bannar svo að segja bönkunum að lána þessum verzlunum og atvinnurekendum til rekstrar sins nauðsynlegt lánsfé, ætti bara ekki að vera svo aðgangshörð, a.m.k. þegar hún stendur eins vel að vígi og nú með innheimtu söluskattsins, að hún gangi að mönnum og setji þá á hausinn. Ég held þess vegna, að þessi till. mín styðjist við fulla sanngirni og að hæstv. ríkisstj. geti eins unað við þá innheimtuaðferð, sem ákveðin var 1948 og beitt næstu árin þar á eftir, enda þótt viss óþægindi séu fyrir ríkissjóð, eins og að beita þeirri aðferð, sem nú tíðkast, sem eyðileggur eignir og rekstur manna, sérstaklega þeirra tiltölulega fátæku og lánsfjárlitlu smáatvinnurekenda. Ég skil vel, að stórríkir atvinnurekendur og þau fyrirtæki landsins, sem hafa sérréttindi gagnvart bönkunum, kvarti ekki undan þessu. Það er ekki erfitt fyrir slíka aðila, og þeim stendur líka oft á sama, þótt þeir smærri séu drepnir. En ég álít, að ríkið eigi ekki að innheimta með sams konar aðferðum og dönsku yfirvöldin gerðu harðvítugast, sem létu greipar sópa um eignir bænda. Ég álít, að frekar mætti horfa upp á það, að ríkissjóður tapaði einhverju.