12.10.1951
Efri deild: 12. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

40. mál, lántaka vegna áburðarverksmiðjunnar

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Mig langar að leita upplýsinga um það, hvað nú mun í áætlað að áburðarverksmiðjan muni kosta. Mér hefur skilizt, að áætlun sú, sem gerð var á síðasta ári, hafi haggazt mikið, og tel ég, að það sé von, að svo sé. Ég hef heyrt nefndar ýmsar tölur, og þætti mér líklegast, að upplýsingar ráðh. væru sanni næstar. Ég vil líka spyrja, hve mikið framlag fáist af Marshallfé í áburðarverksmiðjuna. Hæstv. ráðh. minntist réttilega á, að í l. er heimild án takmarkana fyrir stjórnina að taka innient lán til framkvæmdanna. Þetta frv. er því borið fram vegna þess, að stj. telur sig ekki hafa heimild til að taka erlent lán. Ég vil spyrja ráðh., hvort þetta fé ætti að nægja og hvort hann telji, að með þessu sé tryggt, að ekki þurfi nýja lántöku til áburðarverksmiðjunnar.