18.12.1951
Efri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég þarf sáralítið fram að taka, sökum þess að bæði hæstv. fjmrh. og hv. þm. Barð. hafa svarað ræðu hv. 1. landsk., frsm. minni hl. n. Ég ætla því að spara mér svarið og víkja aðeins að einu atriði í ræðu hv. þm., sem oft heyrist frá honum og hans flokki og raunar fleirum.

Langur kafli í ræðu hv. 1. landsk. var um það, að söluskatturinn væri óvinsæll. Ég efast ekki um það, en það er ekkert sérstakt um söluskattinn. Hvaða skattar eru það, sem ekki eru óvinsælir? Ekki er tekjuskatturinn vinsæll. Ef þetta er hinn rétti mælikvarði að áliti hv. þm., þá hlýtur hann að vera fylgjandi frv. hv. þm. Barð. um að afnema tekju- og eignarskatt. — Hann talaði um, að fólkið krefðist þess, að söluskatturinn væri afnuminn, en samtímis koma líka fram aðrar kröfur um útgjöld úr ríkissjóði. Það er hægt að vera á móti öllum tekjuöflunarleiðum og með öllum útgjöldum, en það er stjórnmálastefna, sem þægilegt er að halda fram, en enginn flokkur getur fylgt í framkvæmd. Og það ætla ég, að austur í Rússíá séu einhverjir skattar og sumir ekki betri en söluskatturinn. Það er ekki óvenjulegt, að sami fundur krefjist alls konar útgjalda fyrir sína sveit, en sé á móti öllum sköttum. Og það nú minna hv. þm. á það, að þegar hann var sjálfur í ríkisstj., þá voru líka lagðir á skattar. Ég man ekki betur en að þá væri lagður á skattur, sem var ákaflega líkur söluskattinum. Hann bar ekki sama nafn, en var sama eðlis, og ég man ekki betur en að hv. þm. hafi verið með honum. hað kvað vera skopleikur á ferðinni í Reykjavik, sem heitir: „Þetta er ekki hægt“. Ég vildi líka segja í þessu sambandi: þetta er ekki hægt. Ríkissjóður verður að hafa sínar tekjur á móti útgjöldunum. Ef ekki er samræmi milli þessa, er búið að vera með heilbrigðan fjárhag ríkissjóðs og hætt við, að sama verði um atvinnuvegina og einstaklingana.

Það hefur enginn gaman af því að samþ. að leggja skatta á fólk, en það er óhjákvæmilegt, og það er vert að lita á það, að fá þjóðfélög í heiminum munu, að því er ég hygg, taka að sér eins mikla þjónustu fyrir almenning og íslenzka þjóðfélagið gerir. Fólkið fær töluvert í aðra hönd fyrir þá skatta, sem það greiðir, og það mega allir vita, að ef það á að afnema þennan skatt eða aðra skatta yfirleitt, þ.e. að lækka tekjur ríkissjóðs, þá hlýtur eitthvað af því að hverfa, sem ríkið nú leggur fram til almenningsheilla. Og ég efast um, að hv. þm. geti bent á leið til þess að gera hvort tveggja í einu, sem virðist vera stefna hans og hans flokks, að lækka tekjur ríkissjóðs, skatta og tolla, en auka útgjöldin. Þætti mér fróðlegt að sjá hann sem fjmrh. eftir svona tvö ár, ef þeirri stefnu væri framfylgt.

Ég mun svo ekki þreyta umr. um þetta öllu lengur, ég álít þær fremur tilgangslitlar, en gat ekki stillt mig um að benda á þetta.