18.12.1951
Efri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. lét svo um mælt í ræðu sinni áðan, að það yrði stórum dýrara, ef söluskatturinn yrði felldur niður og lagður á innflutningstollur í staðinn, að greiða þann toll, því að auk sjálfs tollsins yrði að greiða a.m.k. 30% verzlunarálagningu á tollinn sjálfan, en þessu væri ekki til að dreifa að því er söluskattinn snerti, því að ekki mætti leggja verzlunarálagningu á söluskatt. Ég vil fullyrða, að þessar málsbætur söluskattinum til handa eru nú ekki lengur fyrir hendi. Það er rétt, að þegar söluskatturinn upphaflega var lagður á til þess að greiða uppbót á útfluttan fisk og bæta þannig afkomu útvegsins, þá var þetta ákvæði sett inn í l. En meðan þessi l. voru í gildi, var verðlagseftirlit og hámarksálagning í l. Nú er því ekki til að dreifa nema í örfáum tilfellum, þannig að ekki er lengur hægt að koma við þessu eftirlíti. Þess vegna er nú sama um söluskattinn eins og hverja aðra tolla, innflutningstolla, að þar sem ekki er verðlagseftirlit, er lagt á söluskattinn á sama hátt og aðra tolla, sem eru greiddir af hendi. Má því strika út þennan sparnað, sem leiðir af söluskattinum.

Hæstv. ráðh. sagði í sinni fyrstu ræðu, að allar nálægar þjóðir legðu á söluskatt. Ég er nú ekki kunnugur því, hvort þetta er fyllilega rétt, ég veit, að hann er lagður á í ýmsum nálægum löndum, en veit ekki til, að hjá nokkurri þjóð sé lagður á söluskattur á sama hátt og hjá okkur. Ég held, að söluskattur á brauðvöru sé lagður á þrisvar sinnum, fyrst á innkaupsverð efnisins til Rúgbrauðsgerðarinnar, þar næst þegar Rúgbrauðsgerðin selur vöruna til heildsala og svo loks, þegar heildsalar selja hana út í brauðsölubúðirnar. Ég vil fullyrða, að hvergi annars staðar í heiminum tíðkast önnur eins álagning á slíka vöru sem brauð. — Eins og hv. þm. Barð. er kunnugt, er í Englandi söluskattur á lagður allt niður í 2% og yfir 100°á og flokkaður eftir tegund vörunnar, eftir því, hvort um er að ræða þarfavöru, óhófsvöru eða nauðsynjavöru. Í Noregi er söluskatturinn jafnhár á öllum vörum og er þar ekki lagður á nema einu sinni og aðeins í smásölu. Hér getur hann komizt upp yfir 15% með álagningu, þegar skattur er lagður á skatt, sem áður er búið að leggja á, því að það er ekki eingöngu, hversu óeðlilegur söluskatturinn er í heild, heldur er hann einnig lagður hér á með þeim hætti, að það lítur út fyrir, að leitazt sé við að láta hann koma sem allra ranglátast niður, og allar þær hömlur, sem settar voru fyrir því í byrjun, að honum yrði ranglega beitt, hafa gersamlega verið þurrkaðar út. Ég held því, að tilvitnun til annarra þjóða í þessu efni veiti ekki þessu frv. hæstv. ríkisstj. mikinn stuðning.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri gersamlega úr lausu lofti gripið, að söluskatturinn gæti haft nokkur áhrif á starfsmöguleika íslenzkra iðnaðarfyrirtækja, vegna þess, sagði hann, að á fullunninni vöru væri 72% verðtollur og væri einn veigamesti þátturinn í verðinn, en söluskatturinn hefði þar ekkert að segja. — — — Ég er að vísu sammála hæstv. fjmrh. um, að það beri að afgr. greiðsluhallalaus fjárl. Nú hefur reynslan sýnt, að tekjuafgangurinn hefur farið fram úr þeirri áætlun um 15–20 millj. kr., sem hann var áætlaður áður en endurskoðun fór fram í des., en þá var hann áætlaður 10.7 millj. Þegar fjárl. voru undirbúin, reyndi hæstv. ráðh. að fullvíssa þm. um, að það yrði aldrei svo mikill tekjuafgangur. Þegar seinustu fjárl. voru til umr., lézt hæstv. ráðh. sannfærður um, að ekki væri nóg til fyrir öllum gjöldum, þó að hann vissi fullvel, að svo væri. Svo á að friða menn með því að úthluta 7 millj. kr. Þetta er gert af þeim flokki, sem jafnan þykist hafa borið mál sveitarfélaganna fyrir brjósti. Með þennan tekjuafgang geta hæstv. ráðh. og ríkisstj. komið og tilkynnt Alþingi, að nú séu allar dyr lokaðar. — Svo fæst loks ráðstafað 7 millj. kr. til sveitarfélaga, þó að alltaf sé verið að tala um það hér á Alþingi, hversu illa þau séu stödd. En þetta breytir ekki afstöðu Alþfl. til þessa frv. Afstaða hans var strax skýrt mörkuð í Nd., og er hún enn sú sama, að okkur finnst að ríkisstj. eigi að láta 1/4 hluta þessa skatts renna til sveitarfélaganna, þar sem vitað er, hversu illa þau eru stödd fjárhagslega. — Svo skal ég láta þetta nægja, þó að vissulega væri margt fleira um þessi vinnubrögð að segja.