18.12.1951
Efri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja tímann með löngum ræðuhöldum. En ég get ekki stillt mig um að minnast á einstök atriði, sem komu fram í ræðu hv. 1. landsk. þm. Hann minntist á veltuskattinn, sem ég minntist á áðan. Hann sagði, að það skipti nokkuð öðru máli um þennan skatt en söluskattinn, aðallega vegna þess, sagði hv. þm., að veltuskatturinn hefði ekki komið á almenning, heldur á veltu verzlunarfyrirtækja. Þetta minnir svo skemmtilega á þann skollaleik, sem leikinn er af kommúnistum. Aðferðin er að leggja á veltuskatt og svo tekið fram í l., að ekki megi leggja á vöruverðið. En á sama tíma er verzlunum leyft að leggja svo mikið á, að þau þoli að borga veltuskattinn. Hver borgar þennan veltuskatt? Ætli það séu ekki þeir, sem borga háa vöruverðið, sem er meðal annars til þess, að fyrirtækin þoli að borga skattinn? Ég veit, að hv. 1. landsk. þm. er ekki svo skyni skroppinn, að hann sjái ekki þennan skollaleik. Auk þess koma svo þessir skattar sem beinir skattar á alla þegnana. Svo þykist þessi hv. þm. vera algerlega á móti öllum sköttum á neyzluvörum, nema því aðeins, að þeim sé komið svo fyrir, að almenningur borgi ekki neitt, heldur fyrirtækin. En fyrirtækin verða samt sem áður að hafa þær tekjur, að þau þoli að borga skattinn.

Við skulum taka annað dæmi með iðnaðinn og söluskattinn. Árið 1950 var greiddur söluskattur, þá var iðnaðurinn rekinn með blóma. Árið 1951 var greiddur jafnhár söluskattur, en þá fer að halla undan fæti fyrir iðnaðinum.

Það þriðja, sem þessi hv. þm. talaði um, er samkomulagið um greiðslu til þeirra sveitarfélaga, sem hafa byggt skóla og hafnir, en hafa ekki fengið ríkisstyrk greiddan, en það sé svo bara út í bláinn, vegna þess að þessir aðilar geti bara gengið upp í stjórnarráðið og sóti: þangað peninga. Þetta eru svigurmæli og deilur á þá, sem standa að þessum framkvæmdum. Hvað sýnir framkvæmd þessa hv. þm. sjálfs, þegar hann var menntmrh.? Taldi hann sér þá skylt að greiða bæjar- og sveitarfélögum samstundis þann hluta, sem ríkið átti að greiða? Nei, hann greiddi aðeins það, sem fjárlögin ákváðu, og ekki meira. Og þegar ég tók við menntamálunum af hv. þm., þá voru stórar fjárhæðir ógreiddar til sveitarfélaganna, vegna þess að hv. þm. hafði ekki talið sér skylt að greiða þær. Enginn ráðh. hefur talið skylt að greiða þannig. Og aldrei hefur nokkur ráðh. álitið skylt að greiða það, sem reikningarnir sýndu, heldur aðeins eftir því, sem fé var veitt á fjárlögum. Og þessi þm. gerði það líka, þegar hann var ráðh. Samt sem áður notar hann þessa röksemdafærslu nú.

Fjórða dæmið, sem ég nefni, er, að hv. þm. stendur hér og talar um, að það sé fátækt í landinu. Ég veit, að það er veruleg fátækt og að það hafa ekki allir atvinnu eins og þeir þyrftu að hafa. En hvernig er úrræðið, sem þessi hv. þm. og flokkur hans benda á og eru með uppástungur um? Það er að hætta að leggja á söluskatt, sem þýðir 80 millj. kr. tekjurýrnun fyrir ríkissjóð og mundi þá þýða, að tekjuhalli yrði á fjárlögum og stór stöðvun á verklegum framkvæmdum. Heldur hv. þm., að fyrir þá, sem eiga örðugt uppdráttar, af því að þeir hafa ekki. næga atvinnu, sé betra að fella niður söluskattinn? Heldur hv. þm., að það bæti nokkuð úr fátæktinni? Ég held ekki.