18.12.1951
Efri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Mér dettur ekki í hug að halda fram við hv. þm. Barð., að það sé nein ástæða til að flýta þessari löggjöf. Hv. þm. Barð. gaf hér mjög misskildar upplýsingar. Hann heldur því fram, að það sé stjórnarskrárbrot, ef greitt sé úr ríkissjóði meira en heimilað er á fjárlögum. Það hafa þá margir brotið stjórnarskrána, og lýsi ég sök á hendur mér. Og ég tel, að það brot hafi fleiri gert. Stjórnarskráin hefur þá verið margbrotin. Ég held, að hv. þm. Barð. mætti gæta sín. (GJ: Ég hef aldrei brotið hana.) Nei, en þetta gæti komið fyrir. Hv. þm. hefur setið á mörgum þingum og fylgzt vel með þingmálum og að öðru leyti lagt mikla vinnu og sýnt ástundun við störf sín, og ætti hann því að vita, að fjárlög afnema ekki önnur lög. (GJ: Í vissum tilfellum.) Nei, það er ekki rétt.

Hv. þm. sagði, að ég hafi verið með till. um 60 millj. kr. álag á ríkissjóð á næsta ári. Ég vil biðja hv. þm. að nefna þskj., þar sem þetta er prentað. Ég kannast alls ekki við þetta. Ég hef ekki komið með neinar till. um milljónaálögur á þjóðina. Það, sem hv. þm. virðist eiga hér við, mun vera afnám greiðsluskyldu hinna tryggðu, sem kemur þá til framkvæmda á árinu 1953. Útgjöldin í sambandi við þetta eru heldur ekki 60 millj. Það er allt of há upphæð. Hér er um að ræða árið 1953, en ekki árið 1952. Það þarf að innheimta þetta fé af fólkinu, en það er óréttlátt að innheimta þetta með nefskatti. Það er því ekki fyrr en á árinu 1953, sem kæmi til kasta Alþingis varðandi það mál.