12.10.1951
Efri deild: 12. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

40. mál, lántaka vegna áburðarverksmiðjunnar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er auðvitað ætlazt til, að áburðarverksmiðjan beri áhættuna af gengismismun. Hún tekur lánið með sömu kjörum, og þarf ekki að taka það frekar fram í lögunum. Í l. um lántöku vegna Sogs- og Laxárvirkjananna er sami háttur hafður á. Ríkið tekur lánið og endurlánar það með sömu kjörum. Það hafa allir aðilar litið á þetta sem sjálfsagt, enda væru það ekki sömu kjör, ef svo væri ekki. Aftur á móti er lántöku vegna landbúnaðarins öðruvísi háttað. Þar er gert ráð fyrir að lána með sömu kjörum, en áhættan er lögð á bankann.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Vestm. spurði, þá er á síðustu áætlun ráðgert, að verksmiðjan kosti 93 millj. ísl. kr. Ég hef ekki haft tækifæri til að skoða áætlunina nýlega, en það getur komið til mála, að það vanti aðflutningsgjöld á hana. Ég veit þetta ekki fyrir vist, en hún er a.m.k. 93 millj. kr. Mér er ekki kunnugt, í hverju hækkunin liggur, en mun þó talsvert vera í vélum og flutningsgjöldum. Af Marshallfé er búið að láta til verksmiðjunnar 2 millj. 580 þús. dollara. Ég held, að þetta muni vera rétt, en þori þó ekki að ábyrgjast það. Þá er dálitið á reiki með einstaka hluti, hvort þeir verða keyptir í Evrópu eða Ameríku. En eftir nýjustu upplýsingum þykir líklegt, að 850 þús. dollarar muni duga fyrir Evrópukostnaði. Þá er sýnilegt, að þetta fer langt í það að duga, þó að ekki sé enn þá fullráðið, hvar einstakir hlutir verða keyptir. Það er ekki fyllilega hægt að miða við, að hægt sé að borga í Ameríkugjaldeyri þar, sem menn vildu helzt að hlutirnir yrðu keyptir.