19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Mig langar til þess, vegna þess að það er okkar hugarfar allra að gleðja hver annan fyrir jólin, að hugga hv. 2. þm. Reykv. Hann hefur tvenns konar áhyggjur — mjög þungar. Annars vegar, að það hefur hent ríkisstj. og fjmrh. að hafa tekið upp á að borga skuldir — og ekki aðeins það, heldur hefur líka tekizt að borga Landsbankanum skuldir, sem er náttúrlega næst á eftir Unilever. Ég vil aðeins í skini hugarfars jólanna benda honum á, að það er gleðiefni hverjum ábyrgum manni, ef honum tekst að borga skuldir, jafnvel þó að þjóðbankinn fái skuldirnar í því skyni að borga þær aftur í atvinnurekstur þjóðarinnar. Svo var hann með enn þyngri áhyggjur um, að þessi ágæta ríkisstj. sé nú í mikilli hættu. Ég get huggað hann með því að segja honum, að það er hreinn jólafriðarkærleiksandi ríkjandi á stjórnarheimilinu, og ég vona, að svo verði líka eftir nýárið. Þess vegna er óhætt að taka sína fullu jólagleði nú þegar. Út úr þessu máli vil ég að það liggi skýrt fyrir, að frá mínu sjónarmiði tel ég þörf bæjar- og sveitarfélaganna fyrir auknar tekjur mjög brýna, og mér þykir eðlilegt, að borgarstjórinn í Reykjavík, sem var forseti þeirrar samkundu bæjarstjóra landsins, sem kom saman snemma á þessu hausti, hafi leitað allra úrræða til þess að reyna að bera fram til sigurs þær óskir, sem þar voru fram bornar og af ríkri þörf sprottnar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að þessari þörf sé ekki hægt að fullnægja nú með því að taka hluta af tekjum ríkissjóðs, og hefði þess vegna, ef ég hefði staðið hér við 2. umr. þessa máls í þessari d., greitt atkv. á móti hans till. Nú er ég hvorki spámaður né spámannlega vaxinn, né heldur ætla ég að varpa yfir mig neinum slíkum hjúp, og ég er ekki bær um að segja fyrir um það„ hver raunveruleg niðursítaða ríkisbúskaparins verður næsta ár. En ég lít þeim augum á ástandið, að ég mundi ekki sem fjmrh. þora, þrátt fyrir það, sem ég nú hef lýst um þörf bæjar- og sveitarfélaga, að rýra tekjur ríkissjóðs, — ég mundi ekki þora það með þeirri verkun, sem hefur verið á gjaldahlið fjárl. að lokinni 3. umr. yfirleitt, og út frá því grundvallarsjónarmiði, sem okkur öllum er að verða æ ljósara, að greiðsluhallafjárl. leiða til mikils ófarnaðar í öllu efnahagslífi þjóðarinnar. — Þetta vil ég að liggi skýrt fyrir hvað mig áhrærir og okkur umboðsmenn Sjálfstfl. í ríkisstj.