19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt þýðingarlaust að fara um þetta mál mörgum orðum héðan af eftir þá yfirlýsingu, sem forsvarsmaður þess, hv. 7. þm. Reykv., gaf hér áðan, að hann mundi nú ekki lengur greiða atkv. með þeim till., sem hann bar hér sjálfur fram. Það hefur þess vegna farið fyrir honum eins og hv. 2. þm. Reykv. lýsti áðan, að Sjálfstfl. virðist hafa glúpnað fyrir hinum kreppta hnefa fjmrh. og forsrh., sem báðir lýstu yfir við 2. umr., að þeir segðu af sér, ef þessi till. næði fram að ganga. En ég stóð hér upp til þess að benda á það, sem hv. 7. þm. Reykv. gerði að meginmáli í sínum málflutningi, bæði fyrr og nú, nefnilega það, að hans skoðun væri, að það mætti vel afgreiða tekjuhallalaus og greiðsluhallalaus fjárl., þó að þessi samþykkt væri nú gerð. Það kom skýrt fram hjá honum við fyrri umr. og kom enn fram hjá honum í þessari yfirlýsingu, svo að það, að hann glúpnar fyrir fjmrh., getur ekki stafað af öðru en ofríki hans, því að meginkjarni málsins stendur enn óhaggaður að hans dómi, að þetta sé hægt án þess að koma út með greiðsluhalla, þó að þessi samþykkt verði gerð. Mér finnst ekki skelegg þessi forusta Sjálfstfl. í þessu máli, og þó að viðurkennt sé, eins og gert er nú af hæstv. atvmrh. og ýmsum öðrum sjálfstæðismönnum, sem um þetta mál hafa talað, að þörf bæjarfélaga sé brýn, og farið um hana viðurkenningarorðum, þá lifa þau ekki á því; því aðeins lifa þau, að það fylgi einhver verk á eftir, sem þau geta haft gagn af. En hæstv. atvmrh. sagði í sinni ræðu, að nú væri þessu máli svo langt komið og gengið svo langt til móts við óskir framsóknarmanna í því, að það ríkti jólafriðarkærleiksandi, eins og hann orðaði það, á stjórnarheimilinu, og þá er sjálfsagt vel, enda vist fyrir þennan jólafriðarkærleiksanda fórnað hagsmunum bæjarfélaganna.

Það var enn eitt atriði, sem ég vildi minnast á í þessu sambandi, það er, að mér finnst hæstv. fjmrh. í sinni ræðu rugla saman tveimur óskyldum hlutum, óskyldum hugtökum.

Annars vegar því að bæta úr brýnni þörf bæjanna fyrir auknar tekjur og hins vegar að standa í skilum með einhvern hluta af þeim skuldum, sem ríkissjóður á ógreiddar til bæjanna. Þetta er tvennt óskylt, og þó að leyst sé úr öðru, þá bætir það ekkert úr hinu. — Ég sýndi fram á það áðan, að þó að ríkissjóður tæki sig til og greiddi 1/3 af skuldum sínum við bæjar- og sveitarfélögin vegna hafnargerða og 1/3 af skuldum vegna skólabygginga, þá kemur það tæplega öðrum að notum en þeim, sem losna við þá vaxtabyrði, sem á þeim hvílir, vegna þess að þau hafa orðið að standa undir þátttöku í lánum, sem tekin hafa verið gegn greiðslu, þegar þessi ríkissjóðsframlög yrðu innt af hendi. Með öðrum orðum: Það, sem skeður, þegar þessar greiðslur eru inntar af hendi frá ríkissjóði, er, að þær eru veðsettar, en vextirnir fara til lánardrottnanna, og þeir verða þeim mun betur stæðir. Bæjarfélögin eiga ekki heldur inni hjá ríkissjóði sömu upphæð, en losna við vaxtabyrði, sem á þeim hefur hvílt þyngst. Það er eini ávinningurinn. En þeirra rekstur er á eins völtum fótum eftir sem áður. Þetta er höfuðkjarni málsins. Það er því ekkert verið að koma til móts við óskir bæjar- og sveitarfélaga um bætta rekstraraðstöðu.

Það hefur verið sýnt fram á það með rökum, hve geysilega miklu örðugri öll aðstaða bæjanna hefur verið gerð með innheimtu skatta, sem í heild sinni nema jafnhárri upphæð og útsvörin. Söluskatturinn veldur því, hversu torveld er innheimta útsvara. En á móti þessu kemur sú bót frá ríkinu, að það borgar hluta af gömlum skuldum, sem lítið kemur þessu máli við. Ég vildi aðeins benda á þetta og jafnframt hitt, að mér finnst forusta Sjálfstfl. í þessu máli og stjórnarsamvinnunni vera með ólíkindum, eftir því sem maður hefur heyrt því lýst að undanförnu, þar sem það hefur ráðið úrslitum mála hér, að það þarf ekki annað en að hæstv. fjmrh. ybbi sig dálítið, þá lyppast sjálfstæðismennirnir niður og gera eins og Framsókn óskar eftir, til þess að jólafriðarkærleiksandi megi ríkja á stjórnarheimilinu, og hagsmunum bæjar- og sveitarfélaganna er fórnað.